Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um tillögu til þingsályktunar um sveigjanlega tilhögun á fæðingar- og foreldraorlofi. 153. löggjafarþing 2022–2023. Þingskjal 215 — 214. mál. 

 

Hallveigarstaðir, Reykjavík
8. febrúar 2022

 

Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að þingmenn skuli sýna jafnréttismálum og stöðu kynjanna á vinnumarkaði áhuga. Kvenréttindafélagið telur þó þessa tillögu um sveigjanlega tilhögun á fæðingar- og foreldraorlofi vera afturför í jafnréttismálum og hvetur því þingfólk eindregið til þess að samþykkja hana ekki óbreytta. 

Kvenréttindafélag Íslands styður núverandi löggjöf sem tryggir að réttinum til fæðingar- og foreldraorlofs sé deilt jafnt á milli foreldra, réttarbót sem stuðlar að bættri stöðu kvenna og auknu kynjajafnrétti hér á landi. Allar rannsóknir sýna að karlar taka aðeins brot af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs, sem hefur þær afleiðingar að konur eru lengur frá vinnumarkaði og hefur það raunveruleg áhrif á launakjör þeirra og lífeyrisréttindi. Á sama tíma hafa karlar færri tækifæri til að sinna börnum sínum. 

Kvenréttindafélag Íslands lýsir vonbrigðum sínum með það hvernig tillagan til þingsályktunar stillir því upp að um ósamrýmanlega hagsmuni barna annarsvegar og jafnréttisbaráttunnar hinsvegar sé að ræða. Að mati félagsins eru órjúfanleg tengsl milli jafnréttis og hagsmuna barna. Á vefsíðunni Betrafæðingarorlof.is hafa verið teknar saman niðurstöður rannsókna á fæðingarorlofi á Íslandi, sem allar sýna skýrt að jafnrétti er börnum jafnt sem fjölskyldum fyrir bestu. Kvenréttindafélag Íslands lýsir einnig áhyggjum sínum með hvernig tillagan stillir frelsi upp á móti jafnrétti. Raunverulegt valfrelsi fólks byggist á jöfnum tækifærum og jöfnum réttindum og fæst því aldrei nema það byggist á jafnréttisgrundvelli. 

Kvenréttindafélag Íslands ítrekar enn og aftur að nauðsynlegt sé að brúa bilið á milli þess þegar fæðingar- og foreldraorlofi lýkur og þegar daggæsla barna er tryggð. Jafnvel eftir þá lengingu fæðingar- og foreldraorlofs sem tryggt var í síðasta frumvarpi, stendur eftir eitt ár sem foreldrar hafa ekki tryggða daggæslu, og 17 mánuðir fyrir suma einstæða foreldra. Ísland er eina Norðurlandið þar sem börn hafa ekki lögbundinn rétt til dagvistunar. Áríðandi er að við innleiðum lög um dagvist og tryggjum fjármögnun fyrir dagvistun allra barna óháð hjúskaparstöðu foreldra frá þeim tíma þegar fæðingarorlofsrétti lýkur. 

Aðrar fréttir