Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um Verðmætamat kvennastarfa, tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa. Forsætisráðuneytið, mál nr. 173/2021.

 

 

5. október 2021
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands fagnar tímamótaskýrslu forsætisráðuneytisins um verðmætamat kvennastarfa, þar sem starfshópur forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa leggur til að stofnaður verði aðgerðarhópur stjórnvalda um launajafnrétti með aðild aðila vinnumarkaðarins sem hafi m.a. eftirfarandi hlutverk:

  • Koma á fót þróunarverkefni um mat á virði starfa að því markmiði að skapa verkfæri sem fangar jafnvirðisnálgun laganna
  • Þróa samningaleið um jafnlaunakröfur með aðilum vinnumarkaðarins. Þar verði m.a. horft til áhrifa breytinga á ráðningasamböndum og útvistun starfa á launamun kynjanna
  • Þekkingaruppbygging og vitundarvakning

Kvenréttindafélag Íslands tekur heilshugar undir þessar tillögur starfshópsins og hvetur næstu ríkisstjórn til að hrinda þeim tafarlaust í framkvæmd sem og að tryggja starfi aðgerðarhópsins nægilegt fjármagn og starfsfólk.

Kvenréttindafélag Íslands telur að þau þrjú verkefni sem lagt er til að verði í framkvæmd aðgerðarhóps komi öll til með að auka launajafnrétti hér á landi. Sérstaklega fagnar félagið þeirri hugmynd að þróað verði nýtt virðismatskerfi. Líkt og starfshópurinn bendir á, þá skortir okkur verkfæri til að bera saman störf sem unnin eru á fleiri en einum vinnustað með heildstæðum hætti. Það er því ómetanlegt að unnið sé virðismatskerfi sem byggir á þekkingu á stöðu kynjanna á vinnumarkaði og hægt er að nota til að bera saman störf hjá mismunandi vinnustöðum. Slíkt verkfæri kemur til með að auðvelda stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins að leiðrétta kynbundinn launamun í samfélaginu. Einnig styður slíkt kerfi núgildandi starfsmatskerfi fyrirtækja og stofnana og aðstoðar okkur að leiðrétta mögulegt vanmat í þeim.

Tekur Kvenréttindafélagið ennfremur undir þá skoðun að samhliða sé unnið að nauðsynlegum umbótum á jafnlaunastaðlinum ÍST85:2012 og framkvæmd jafnlaunavottunar. Jafnlaunastaðallinn var og er mikilvægt tæki til að stuðla að launajafnrétti á vinnustað, en níu ár eru síðan staðallinn var gefinn út. Á þessum níu árum höfum við lært mikið um framkvæmd staðalsins, hvað virkar og hvað virkar ekki, og nauðsynlegt er að við hlúum að og skerpum þetta mikilvæga verkfæri á vinnumarkaðnum.

Kvenréttindafélag Íslands fagnar enn fremur þeirri tillögu að nýr starfshópur skuli þróa samningaleið um jafnlaunakröfur með aðilum vinnumarkaðarins og að í þeirri vinnu verði litið til reynslu Nýja Sjálands. Nýja Sjáland hefur innleitt ferli sem auðveldar lausn á ágreiningsmálum sem varða jafnlaunakröfur og tryggir að ágreiningi sem ekki er hægt að leysa sé vísað til dómstóla. Samsvarandi leið hér á landi myndi gefa samtökum launafólks gagnsæja og fordæmisgefandi ferla til að semja um launaleiðréttingu fyrir kvennastéttir. Sérstaklega fagnar Kvenréttindafélagið þeirri tillögu að í þessari vinnu verði einnig litið til útvistunar starfa, að aðilar og fyrirtæki geti ekki sneitt fram hjá jafnréttislögum og kjarasamningum með því að úthýsa vinnu.

Að lokum er lagt til að aðgerðarhópur um launajafnrétti vinni að þekkingaruppbyggingu og vitundarvakningu. Þessi aðgerð er gífurlega mikilvæg, en launamun kynjanna verður ekki útrýmt nema með stórhuga og samstilltum aðgerðum samfélagsins alls, aðgerðum sem þurfa að byggjast á gagnsæjum og uppfærðum upplýsingum.

Við búum því miður enn í samfélagi þar sem kvennastörf eru minna metin en karlastörf, þar sem framlag kvenna til samfélagsins er enn talið minna virði en framlag karla. Til þess að leiðrétta þessa skekkju þurfum við ekki aðeins verkfæri og verkferla, heldur samstilltan vilja og kraft. Leggur Kvenréttindafélag Íslands til að ásamt því að vinna að kynningarefni sem ætlað er almenningi, leiti aðgerðarhópurinn eftir samstarfi við kynjafræðikennara og vinni námsefni sem ætlað sé til kennslu á grunn- og framhaldsskólastigi um jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Kvenréttindafélag Íslands leggur áherslu á að allar aðgerðir stjórnvalda til að jafna launamun kynjanna líti til fjölbreytileikans. Konur hafa að jafnaði lægri laun á íslenskum vinnumarkaði en karlar, en aðrir mismununarþættir hafa einnig áhrif á laun kvenna, svo sem fötlun og uppruni. Félagið minnir á rannsókn Hagstofu Íslands á launamun eftir bakgrunni 2008-2017 sem sýnir að innflytjendur hafa að jafnaði 8% lægri laun en innlendir. Við tökum undir lokaorð skýrslu starfshóps um endurmat á virði kvennastarfa að þekkingaruppbygging, verkfæri og aðrar aðgerðir verði einnig beitt til að stuðla að jafnri meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgeti, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.

Konur hafa gengið úr vinnu sex sinnum síðustu hálfa öldina til að mótmæla landlægu kjaramisrétti kynjanna hér á landi, á kvennafrídegi 1975, 1985, 2005, 2010, 2016 og 2018. Kvenréttindafélag Íslands minnir á kröfur kvenna sem lesnar voru upp á baráttufundi á Arnarhóli þann 24. október 2018:

Jafnréttismál eru hagsmunir okkar allra, ekki bara kvenna. Breytum menningunni og hugarfarinu, saman! Stöndum saman og höfum hátt! Breytum ekki konum, breytum samfélaginu! Kjarajafnrétti STRAX!

Aðrar fréttir