Kvenréttindafélag Íslands gefur öllum fyrsta árs nemum í framhaldsskólum landsins bókina We Should All Be Feminists eftir Chimamanda Ngozi Adichie, um 4300 ungmennum.

Kvenréttindafélagið var stofnað árið 1907 af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur til að tryggja jafnrétti kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Kvenréttindafélagið eru ein elstu félagasamtök landsins, en við fögnum á árinu 110 afmæli okkar. Bókin kemur út í dag, 27. september, á 161 ártíð Bríetar, en hún fæddist 27. september 1856 í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu.

Lítið námsefni er til á íslensku um kynjafræði og jafnrétti, sérstaklega á framhaldsskólastigi. Við ættum öll að vera femínistar er frábær viðbót við þann bókakost sem framhaldsskólakennarar í kynjafræði, félagsfræði, stjórnmálafræði og sagnfræði geta nýtt til kennslu; sem og frábær lesning fyrir ungt fólk sem er að hefja framhaldsskólagöngu sína. Í bókinni lýsir Adichie femínískri hugmyndafræði á aðgengilegan hátt og vekur lesendur sína til umhugsunar um óréttlæti samfélags sem byggt er á ákveðnum hugmyndum um kyn og kynhlutverk.

Bókin er þýdd af Ingunni Ásdísardóttur og gefin út af Benedikt bókaforlagi.

Bókin var formlega afhent skólameistara og nemendum í Borgarholtsskóla í morgun, og verður svo send öðrum skólum á landinu á komandi dögum. Var bókin afhent fyrst Ársæli Guðmundssyni skólameistara og Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur kennara í kynjafræði við Borgarholtsskóla til að heiðra framlag skólans til kennslu í kynjafræði á öllum skólastigum, en það var í Borgarholtsskóla sem kynjafræði var fyrst kennd á framhaldsskólastigi árið 2007.

Bókin er einnig seld í almennri sölu á 2.900 kr. Félagar Kvenréttindafélagsins fá 20% afslátt á bókinni, og fá hana á 2.300 kr. með því að skrifa póst á pantanir@benedikt.is.

Jafnréttissjóður Íslands og velferðarráðuneytið styrktu þessa bókagjöf.

One Comment

  1. […] annarra verkefna sem Kvenréttindafélagið vinnur að þessa dagana er að dreifa bókinni Við ættum öll vera femínistar eftir Chimamanda Ngozi Adichie sem félagið gefur til allra fyrsta árs nema á […]

Comments are closed.

Aðrar fréttir