Aflið, Femínistafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennaathvarfið, Kvennaráðgjöfin, Kvenréttindafélag Íslands, Sólstafir, Stígamót, Tabú og W.O.M.E.N. in Iceland lýsa yfir undrun og mótmæla starfsháttum innanríkisráðherra að skipa aðeins karla í dómnefndina sem meta á hæfi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara.
Við minnum á jafnréttislög þar sem skýrt er kveðið á um að hlutfall kynjanna skuli vera sem jafnast.
Við minnum einnig á að árið 2014 sendi Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna frá sér skýrslu þar sem bent var á að nauðsynlegt sé að auka þekkingu og skilning innan íslenska dómskerfisins á málefnum kynjanna. Sú ábending var gerð í tengslum við alvarlegar athugasemdir sem gerðar voru við meðferð kynferðisbrota og kynbundins ofbeldis í íslenska dómskerfinu. Í sömu skýrslu voru athugasemdir gerðar við fæð kvenna í íslenska dómskerfinu. Þegar skýrslan var skrifuð voru konur 2 af 12 dómurum Hæstaréttar. Núna er ein kona dómari af 9 dómurum Hæstaréttar.
Við bendum að lokum á kröfur norrænu kvennahreyfingarinnar, sem í júní 2014 fundaði á Nordiskt Forum í Svíþjóð. Í lok þeirrar ráðstefnu, sem 30.000 gestir sóttu, voru samþykktar 62 kröfur sem voru afhentar velferðarráðherrum Norðurlandanna. Ein þessara krafna var sú að opinberum aðilum verði skylt að hafa jafnréttissjónarmið að leiðarljósi í allri sinni starfsemi.
Við getum gert betur. Við eigum að gera betur.
Hallveigarstöðum, 24. september 2015