Stjórn Kvenréttindafélagsins afhendir Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu viðurkenningu fyrir gott starf í þágu jafnréttis kynjanna, 31. maí 2017. Á mynd, frá vinstri: Helga Dögg Björgvinsdóttir, Hugrún R. Hjaltadóttir, Fríða Rós Valdimarsdóttir, Hildur Helga Gísladóttir, Alda Hrönn Jóhannsdóttir, Dagný Ósk Aradóttir Pind, Snæfríður Ólafsdóttir, Eyrún Eyþórsdóttir og Steinunn Stefánsdóttir.

Stjórn Kvenréttindafélagsins afhendir Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu viðurkenningu fyrir gott starf í þágu jafnréttis kynjanna, 31. maí 2017. Á mynd, frá vinstri: Helga Dögg Björgvinsdóttir, Hugrún R. Hjaltadóttir, Fríða Rós Valdimarsdóttir, Hildur Helga Gísladóttir, Alda Hrönn Jóhannsdóttir, Dagný Ósk Aradóttir Pind, Snæfríður Ólafsdóttir, Eyrún Eyþórsdóttir og Steinunn Stefánsdóttir.

Kvenréttindafélag Íslands hélt aðalfund sinn á Hallveigarstöðum, í dag 31. maí 2017.

Áður en fundur hófst afhenti formaður Kvenréttindafélagsins Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu viðurkenningu fyrir gott starf í þágu jafnréttis kynjanna. Tók Alda Hrönn Jóhannsdóttir við viðurkenningunni fyrir hönd Lögreglunnar.

Í tilefni 110 ára afmælis Kvenréttindafélags Íslands vill stjórn félagsins veita viðurkenningu þeim aðila sem hefur með framúrskarandi hætti bætt frelsi kvenna undanfarin misseri. 

Fyrir valinu varð Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fyrir að setja ofbeldi gegn konum í forgang innan embættisins.

Ekki einungis hefur verklag í málum um ofbeldi í nánum samböndum verið eflt til muna, svo að tilkynningar til lögreglu hafa aukist til muna, heldur hefur enn fremur verið lögð frekari áhersla á mansal og vændi og stendur til að leggja frekari áherslu á nauðganir og önnur kynferðisbrot.

Með þessu hefur embættið lagt sitt á vogaskálarnar til að uppræta ofbeldi gegn konum og auka lífsgæði kvenna.

Stjórn Kvenréttindafélags Íslands þakkar Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vel unnin störf og vill um leið senda hvatningu til áframhaldandi góðra starfa.

Á aðalfundi var Fríða Rós Valdimarsdóttir kosin formaður Kvenréttindafélagsins til tveggja ára. Dagný Ósk Aradóttir Pind, Steinunn Stefánsdóttir og Tatjana Latinovic voru kosnar í stjórn sem aðalmenn og í varastjórn voru kosnar Ellen Calmon, Eyrún Eyþórsdóttir og Snæfríður Ólafsdóttir. Helga Dögg Björgvinsdóttir, Hildur Helga Gísladóttir og Hugrún R. Hjaltadóttir sitja áfram í stjórn félagsins.

Á fundinum voru samþykktar ýmsar breytingar á lögum félagsins, sú veigamesta án efa uppfærð markmið félagsins:

Markmið félagsins er að vinna að kvenréttindum og jafnri stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Félagið leggur áherslu á mannréttindi í víðum skilningi og vinnur gegn hvers konar mismunun.

Hægt er að lesa núgildandi lög Kvenréttindafélagsins á vefsíðu félagsins.