Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur áformar uppbygginu alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála á Íslandi. Á sama tíma og miðstöðin er hjartans mál Vigdísar er hún um leið íslenskt metnaðarmál í þágu allra heimsins orða. Í tilefni af 80 ára afmæli frú Vigdísar 15. apríl nk. vill KRFÍ leggja áformum þessum sitt lið með þvi að hvetja alla til þess að kaupa kort sem listakonurnar Rúrí, Kristín Gunnlaugsdóttir, Ástríður Magnúsdóttir, Guðrún Einarsdóttir, Karólína Lárusdóttir og Katrín Friðriks hafa hannað, og stofnun Vigdísar selur.


Í kynningu kortanna segir m.a.:

Nafn Vigdísar Finnbogadóttur verður ávallt tengt þeim sögulegaviðburði að hún var fyrst kvenna í heiminum þjóðkjörin forseti. Þetta var árið 1980 og merkir enn í augum heimsins að íslenskar konur hljóti að vera í fararbroddi, öflugar og óhræddar. Með þessum kortum viljum við íslenskar konur þakka Vigdísi Finnbogadóttur fyrir allt sem hún er okkur, og þá sérstaklega að hún er varanleg fyrirmynd og ómetanleg. Til sérstakrar eftirbreytni er metnaðurinn sem Vigdís leggur í sérhvert verkefni, stórt og smátt. Eitt helsta metnaðarmál hennar er að sýna Íslendingum og umheiminum hvers virði Ísland er; náttúra og landslag, saga og tunga. Um þessi efni fjallar Vigdís af þeirri virðingu og væntumþykju sem einkennir allt starf hennar og samskipti. En lykilorðin virðing og væntumþykja hafa sérstakt fordæmisgildi hverjar sem við erum, hvað sem við sýslum. Höfum hugfast að við erum fyrirmyndir með orðum okkar og gjörðum. Á kortin má skrifa orð sem hvetja og þakka. Orð eru til alls fyrst. Þau eru lykill að skilningi manna á milli. Skilningur er undirstaða traustsins sem leiðir til farsælla samskipta en traustið er forsenda árangurs, í einkalífi, í starfi, í viðskiptum og stjórnmálum.

Hver pakki af kortum kostar kr. 3.500 (+ póstkröfukostn. 350).

Hægt er að panta kortin á netfanginu svanhvit [hjá] hi.is, hjá Svanhvíti Aðalsteinsdóttur, verkefnisstjóra hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. GSM 894 8444

 

Aðrar fréttir