Stjórn Kvenréttindafélags Íslands tekur heilshugar undir hugmyndir Ástu R. Jóhannesdóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, um að stjórnmálaflokkarnir setji sér reglur er varða kynjaskiptingu á framboðslistum, þannig að skiptingin verði sem jöfnust. Eins og félags- og tryggingamálaráðherra bendir réttilega á, er það hlutverk flokkanna að tryggja konum og körlum jafna hlutdeild í lýðræðilega kjörnum stofnunum samfélagsins.

Einnig er vakin athygli á því að í síðustu alþingiskonsingum árið 2007 lækkaði hlutfall kvenna á þingi frá alþingiskosningum árið 2003. Hlutfall kvenframbjóðenda var heldur ekki í sama hlutfalli og það hlutfall kvenna sem tóku sæti á Alþingi eftir kosningar. Þetta bendir til þess að konur séu ekki í efstu sætum framboðslistanna í sama mæli og karlar.

Stjórn Kvenréttindafélags Íslands telur að tryggja verði aðkomu kvenna jafnt og karla í örugg sæti framboðslistanna. Tilmæli félags- og tryggingamálaráðherra til stjórnmálaflokkanna eru því tímabær og sanngjörn og í fullu samræmi við núverandi janfréttislög.  

Hallveigarstöðum, 19. febrúar 2009

Aðrar fréttir