14. febrúar 2011 skrifaði KRFÍ eftirfarandi umsögn um áætlun stjórnvalda í jafnréttismálum 2011-2014:


Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um þingsályktunartillögu um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára, þskj. 401 – 334. mál.

 

Kvenréttindafélagi Íslands (KRFÍ) hefur borist til umsagnar ofangreind þingsályktunartillaga. KRFÍ vill lýsa ánægju sinni með vel unna áætlun en þó vekja athygli á fáeinum atriðum sem mætti skerpa á.

Fyrst af öllu vill KRFÍ fagna því sérstaklega að starfsemi Lánatryggingasjóðs kvenna verði endurvakin (16. grein þingsályktunarinnar.). Einnig fagnar KRFÍ því að leggja eigi fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um nálgunarbann og að tryggja eigi að hin svokallaða „austurríska leið“ í tilvikum heimilsofbeldis verði lögfest (22. grein þingsályktunarinnar). Á þetta hefur KRFÍ lagt áherlsu áður og áréttar hér mikilvægi þessa lagaúrræðis.

KRFÍ telur mikilvægt að afstaða stjórnvalda sé eindregnari í því að framfylgja lögum nr. 10/2008, nánar tiltekið 15. grein laganna, sem kveður á um skipun beggja kynja í opinberar  nefndir, ráð og stjórnir (7. grein þingsályktunartillögunnar). Í þingsályktunartillögunni segir að „Ráðuneytin stefni að því að ná 40:60 markmiðinu við skiptun í nefndir, ráð og stjórnir og viðhalda því“. KRFÍ leggur til að greininni verði breytt þannig að hún hljóði á eftirfarandi hátt: „Ráðuneytin skulu ná 40:60 markmiðinu við skipun í nefndir, ráð og stjórnir fyrir lok ársins 2011 og viðhalda því, sbr. 15 gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla“.  Þessu tengdu vill KRFÍ einnig benda á að skerpa mætti með einhverjum hætti lög nr. 13/2010 er varða einka- og hlutafélög og hlutfall kynja í stjórnum þeirra, t.d. með sérstöku átaki og/eða ráðgjöf og mætti þá t.a.m. nota sérfræðiþekkingu starfsfólks Jafnréttisstofu. Það hefur komið í ljós að þrátt fyrir lagasetninguna, sem taka á gildi í lok ársins 2013, bendir ekkert til þess að fyrirtækin séu að undirbúa sig undir gildistöku þeirra. Þetta kom m.a. fram á Jafnréttisþingi 4. febrúar sl. en einnig hefur könnun CreditInfo, sem kynnt var á aðalfundi Félags kvenna í atvinnurekstri í maí sl. leitt í ljós að konum í stjórnum fyrirtækja fækkaði á milli áranna 2009 og 2010.