Kvenréttindafélag Íslands stóð fyrir hádegismálþingi 25. september þar sem rætt var um ábyrgð stjórnmálaflokkanna á uppröðun framboðslista með tilliti til kynjajafnréttis og leiðir til að auka þátttöku kvenna í sveitarstjórnum. Framsögu á málþinginu höfðu Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og Siv Friðleifsdóttir, alþingismaður.
Það var samróma álit málþingsins að hvetja stjórnmálaflokkana til að hafa kynjajafnrétti að leiðarljósi við uppröðun á framboðslista fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar árið 2010. Einnig að hvetja Alþingi sérstaklega til að bregðast við því misræmi sem gætir í hlutfalli kynjanna á framboðslistum almennt með því að taka til umfjöllunar þingályktunartillögu Sivjar Friðleifsdóttur (þingskjal 34, 34. mál) um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum, sem og önnur sambærileg þingmál sem geta leitt til aukinnar þátttöku kvenna í stjórnmálum.