Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun:


21. janúar 2022
Hallveigarstaðir, Reykjavík

Varða, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, birti í vikunni skýrslu um nýja rannsókn sem gerð var á kjörum félagsfólks ASÍ og BSRB. Skýrslan afhjúpar geigvænlegt kynjamisrétti og slæma stöðu kvenna á vinnumarkaðnum, þá sérstaklega innflytjenda og einstæðra mæðra. 

Konur eru mun fleiri en karlar í tekjulægstu hópum landsins. 16,4% kvenna eru með atvinnutekjur undir 300 þúsund krónum á mánuði í atvinnutekjur en tæp 7% karla, og 42% kvenna með 301-500 þúsund krónur á mánuði í atvinnutekjur en aðeins tæp 29% karla. Að sama skapi eru karlarnir fleiri þegar litið er til tekjuhærri hópa landsins. Ríflega 28% karla eru með meira en 701 þúsund krónur á mánuði í atvinnutekjur, en 11,2% kvenna. 14,8% kvenna töldu að fjárskortur síðastliðnu 12 mánuði hafi komið í veg fyrir að þær gætu keypt eins næringarríkan mat og þær telja börn sín þurfa en tæp 8% karla. 

Rannsóknin afhjúpaði einnig fjölþætta mismunun á vinnumarkaði, sem er með öllu ólíðandi. 10,2% innflytjenda er atvinnulaus, en 2,8% innfæddra. Mikill meirihluti kvenna með innflytjendabakgrunn (75,7%) er með 500 þúsund eða minna í atvinnutekjur á mánuði á móti  tæplega 57% erlendra karla, tæplega 54% innfæddra kvenna og ríflega 29% innfæddra karla. Að sama skapi eru eingöngu 2,6% erlendra kvenna með tekjur yfir 701 þúsund krónur en hlutfallið er ríflega 11% meðal karla með innflytjendabakgrunn, ríflega 13% meðal innfæddra kvenna og tæplega 33% hjá innfæddum körlum. Innflytjendur eru líklegri til að eiga erfitt með að ná endum saman en innfæddir og búa við meiri skort.

Heimsfaraldur COVID-19 hefur geisað síðustu tvö árin og enn er ekki lát á. Rannsókn Vörðu afhjúpar að faraldurinn hefur haft mikil áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði og andlega heilsu þeirra. Andlegt álag hefur aukist, sérstaklega á konur, og þeim fjölgar sem eiga erfitt með að ná endum saman.

Kvenréttindafélag Íslands kallar á aðila vinnumarkaðarins til að taka höndum saman til að uppræta landlægt misrétti hér á landi. Það er ótækt að í þessu landi okkar sem stærir sig af jafnrétti og réttlæti skuli slík mismunun þrífast. 

Konur hafa gengið úr vinnu sex sinnum síðustu hálfa öldina til að mótmæla landlægu kjaramisrétti kynjanna hér á landi, á kvennafrídegi 1975, 1985, 2005, 2010, 2016 og 2018. Kvenréttindafélag Íslands minnir á kröfur kvenna sem lesnar voru upp á baráttufundi á Arnarhóli þann 24. október 2018:

Jafnréttismál eru hagsmunir okkar allra, ekki bara kvenna. Breytum menningunni og hugarfarinu, saman! Stöndum saman og höfum hátt! Breytum ekki konum, breytum samfélaginu! Kjarajafnrétti STRAX!

Aðrar fréttir