Á ráðstefnunni Kyn & Kreppa – má nýta kreppuna til aukins kynjajafnréttis, sem KRFÍ hélt laugardaginn 26. sept. sl. kom fram í máli frummælenda að uppbygging nýs þjóðfélags er tilvalið tækifæri til að styrkja stoðir jafnréttis kynjanna.

Einnig kom fram að það að tryggja kynjajafnrétti, sé í raun bein leið út úr kreppunni þar sem það styrki réttlæti í samfélaginu. Til að svo verði er nauðsynlegt að tryggja að fjármagn fáist til þess að styrkja t.d. atvinnuskapandi tækifæri fyrir bæði kynin. Þetta krefst pólitísks vilja af hálfu stjórnmálamanna sem voru hvattir til að styðja jafnréttismálin.

Nokkurrar óþreyju gætti hjá gestum yfir því hversu hlutirnir gerast hægt og bent var á að karlar tapi einnig á því, líkt og konur, að búa í samfélagi sem ekki byggist á jafnrétti allra.

Síðan voru konur hvattar til að íhuga hvaða fyrirtæki og stofnanir þær hefðu viðskipti við, því mælingar sýna að konur standa fyrir um 80% innkaupa vöru og þjónustu til heimilisins. Þar hafa konur vald til þess að beina viðskiptum sínum til aðila sem vinna á réttlátan og sjálfbæran hátt, fylgja jafnréttislögum, o.s.frv.

Hér er hægt að lesa meira um erindin sem haldin voru á ráðstefnunni.

Erindi Tryggva Hallgrímssonar, fulltrúa Jafnréttisvaktarinnar, má lesa hér (á ensku).

Erindi Caritu Peltonen, sérfræðings í jafnréttismálum, má lesa hér (á íslensku).