1. júní 2010 sendi KRFÍ eftirfarandi umsögn um lagafrumvarp um afnám húsmæðraorlofs:


Umsögn KRFÍ um frumvarp til laga um afnám laga um orlof húsmæðra, nr. 53/1972, með síðari breytingum..

 Kvenréttindafélagi Íslands hefur borist til umsagnar ofangreint fumvarp, þingskjal 77 – 77. mál.

Kvenréttindafélag Íslands (KRFÍ) getur ekki að svo stöddu stutt frumvarpið. Rökin þar að baki byggjast annars vegar á því að hnökra er að finna á frumvarpinu þannig að það stenst ekki núverandi lagaframkvæmd og hins vegar að frumvarpið virðist byggja á þeim forsendum að jafnrétti kynjanna sé náð, sem stjórn KRFÍ telur ekki standast.

Varðandi hnökrana á sjálfu frumvarpinu er rétt að benda á að skv. lögum um fjármál sveitarfélaga ber sveitarfélögunum að gera fjárhagsáætlun fyrir komandi ár fyrir árslok. Það má því gera ráð fyrir að nú þegar hafi verið veittar fjárveitingar til orlofsnefndanna fyrir árið 2010 en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að afnema húsmæðraorlofið strax við gildistöku laganna (eða 1. maí 2010). Það að lögin eigi að fella niður störf orlofsnefndanna tafarlaust við gildistöku felur í sér að um afturvirka lagasetningu er að ræða, sem er andstætt meginreglum stjórnsýsluréttarins.

Hvað varðar þær forsendur sem flutningsmenn frumvarpsins gefa sér, þ.e. að ekki halli sérstaklega á konur þegar kemur að atvinnuþátttöku á vinnumarkaði og orlofsréttindi, skal bent á að þrátt fyrir jafnréttislög og jafnréttisbaráttu  á Íslandi, hallar því miður enn talsvert á hlut kvenna, nema helst þegar að menntun kemur, eins og tekið er fyrir í frumvarpinu. Þar er sérstaklega nefnt að konur hafa verið í meirihluta þeirra sem stunda nám við háskóla á Íslandi. Það hefur hins vegar ekki (ennþá) skilað sér út í atvinnulífið. Það má sjá af því að launamunur kynjanna er töluverður og karlar eru í miklum meirihluta þeirra sem sitja í valdastöðum þjóðfélagsins og stjórna fyrirtækjum og stofnunum, skv. nýrri norrænni rannsókn sem kynnt var í nóvember sl. á ráðstefnunni Kyn og völd í Reykjavík. Konur taka ennþá á sig meiri vinnu þegar kemur að heimilisstörfum, barnauppeldi og öðrum ólaunuðum störfum eins og fjölmargar rannsóknir sýna, nú síðast doktorsritgerð Gyðu Margrétar Pétursdóttur í Kynjafræðum við Háskóla Íslands (2009) og konur eiga að jafnaði mun færri eignir en karlar. Munur á stöðu karla og kvenna hefur vissulega minnkað á undanförnum árum en er á engan hátt horfinn.

Þegar allt þetta er tekið saman er ljóst að konur og karlar standa ekki jafnfætis í samfélaginu og fella má núgildandi lög um húsmæðraorlof undir ákvæði jafnréttislaganna sem heimilar sértækar aðgerðir til að rétta kynjahallann. Hvort húsfeður ættu einnig að eiga rétt á slíku orlofi er ekki í verkahring KRFÍ að taka afstöðu til enda berst félagið fyrir réttindum kvenna. Það er mat Kvenréttindafélags Íslands að afnám húsmæðraorlofsins sé engan veginn tímabært að svo stöddu.