Hanna Birna Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Heimsþings kvenleiðtoga, Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Silvana Koch-Mehrin, forseti og stofnandi WPL.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, og Silvana Koch-Mehrin, forseti og stofnandi Women Political Leaders (WPL), undirrituðu samstarfsyfirlýsingu í Stjórnarráðshúsinu í dag.

Um er að ræða framhald af samstarfi á milli ríkisstjórnarinnar, Alþingis og alþjóðlegu þingkvennasamtakanna Women Political Leaders (WPL) um að efna til heimsþings kvenleiðtoga á Íslandi frá 2023 til 2025.

Í febrúar 2018 gerðu sömu aðilar með sér samkomulag um að efna til slíks þings á Íslandi árlega frá 2018 til 2021. Samið var um árlegt framlag stjórnvalda til verkefnisins á samningstímanum sem skiptist jafnt á milli forsætisráðuneytis og Alþingis. Ákveðið var árið 2021 að framlengja samstarfið fyrir 2022 með óbreyttu fjárframlagi stjórnvalda og nú aftur til ársins 2025.

Heimsþingið hefur verið haldið í Reykjavík undanfarin fjögur ár með þátttöku íslenskra og alþjóðlegra samstarfsaðila auk þess sem frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, hefur verið verndari þess. Boð á heimsþingið hljóta alþjóðlegir kvenleiðtogar úr stjórnmálum, viðskiptum, menningu, vísindum og tækni. Næsta heimsþing verður haldið í Hörpu dagana 8. til 9. nóvember nk.

Auk Women Political Leaders, Global Forum og íslenskra stjórnvalda eru sérstakir bakhjarlar Heimsþings kvenleiðtoga; Alvotech, Brim, Deloitte, Eimskip, Empower, Icelandair, Íslandsbanki, Krónan, Landsvirkjun og 66°Norður. Sérstakir samstarfsaðilar eru einnig; Kvenréttindafélag Íslands, Háskóli Íslands, Hvíta Húsið, Höfði Reykjavík Peace Centre, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og UN Women á Íslandi.

Frétt fyrst birt á síðu Stjórnarráðs Íslands