Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um Landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, mál nr. 230/2023 í samráðsgátt

Kvenréttindafélag Íslands styður þingsályktunartillögu um Landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í öllum meginatriðum. Afar brýnt er að samningurinn sé innleiddur í íslensk lög sem fyrst. Félagið fagnar því einnig að tengja eigi landsáætlunina við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og minnir á markmið 5 um jafnrétti.

Skortir á kynjavinkil

Kvenréttindafélagið vill benda á að í framkvæmdaáætlun þingsályktunartillögunnar skortir nokkuð á að kynjasjónarmið séu upphöfð. Í þremur veigamiklum atriðum telur félagið að hægt sé að bæta framkvæmdaáætlunina verulega:

  • Ofbeldi gegn fötluðum konum og kvárum: Eingöngu er fjallað um ofbeldi gegn fötluðum konum í lið E.11. Kvenréttindafélag Íslands telur í fyrsta lagi að tiltaka verði að aðgerðin nái til ofbeldis gegn konum og kvárum og í öðru lagi að vandamál af þeirri stærðargráðu og þeim alvarleika sem um ræðir þurfi að fléttast inn í alla bókstafsliði framkvæmdaáætlunarinnar. Þannig ætti til dæmis í lið A um vitundarvakningu og fræðslu að bæta við sérstökum lið um vitundarvakningu um ofbeldi gegn fötluðum konum og kvárum og í lið D um menntun og vinnu að bæta við sérstökum lið um ofbeldi og áreiti gegn fötluðum konum og kvárum á vinnustöðum og í menntastofnunum.
  • Umönnunarbyrði fjölskyldna fatlaðs fólks: Vegna þess hve takmarkaða þjónustu fatlað fólk fær heilt yfir frá hinu opinbera leggst umönnunarbyrðin á fjölskyldur og sérstaklega nána kvenkyns ættingja þeirra. Oftast er um að ræða umönnun og þjónustu sem sveitarfélögum eða ríki er skylt að veita lögum samkvæmt. Fjölmargar erlendar rannsóknir hafa sýnt að  mæður fatlaðra barna eru í aukinni hættu á örmögnun, ýmsum sjúkdómum og ótímabærum dauða, miðað við mæður ófatlaðra barna sem rannsakendur skýra helst með því álagi sem fylgir því að annast fatlað barn. Umönnunarbyrði fellur eins og þekkt er að verulegu leyti á konur og getur orðið til þess að þær detta út af vinnumarkaði, einangrast frá samfélaginu eða verða örorkulífeyrisþegar. Því er mikilvægt að í landsáætluninni sé tekið á þeim kynjamun sem felst í umönnun fatlaðra einstaklinga sem ekki fá viðeigandi þjónustu frá hinu opinbera. Kvenréttindafélagið fagnar því markmiðum sem liður C framkvæmdaáætlunar um sjálfstætt líf vinnur að.
  • Nokkrar aðgerðir beinast sérstaklega að fötluðum umsækjendum um alþjóðlega vernd eins og aðgerð B.9 og E.3. Að mati Kvenréttindafélagsins skortir verulega á að framkvæmdaáætlunin taki á því að allir innflytjendur með fötlun verða fyrir fjölþættri i mismunun og að skoða verði sérstaklega stöðu innflytjenda með fötlun og þá sérstaklega fatlaðra kvenna og kvára og umönnunaraðila þeirra en ekki bara sem umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Um ýmsar aðgerðir landsáætlunarinnar

Aðgerð A7 um nauðung. Mikilvægt er að í fræðsluefninu sé tiltekið að sérstaklega þarf að gæta að réttindum fatlaðra kvenna í öllu tilliti við umræddar aðgerðir. Samkvæmt rannsóknum segir að fatlaðar konur er sá hópur fólks sem helst verður fyrir ofbeldi og mismunun af jaðarsettum hópum og þeim er oft ekki trúað þegar þær bera vitni um slík voðaverk.

Aðgerð A.10 þar ætti að leitast við að skipa þingmann með fötlun sé þess nokkur kostur í takti við slagorð mannréttindabaráttu fatlaðs fólks – Ekkert um okkur án okkar. 

Aðgerð A.11 um töluleg gögn er mikilvæg til að meta árangur og Kvenréttindafélagið styður hana en vill benda á að taka einnig saman töluleg gögn um atvinnuþátttöku og tekjur aðstandenda fatlaðs fólks og greina eftir kynjum.

Þá styður Kvenréttindafélagið einnig aðgerð E.1. um styttingu biðtíma eftir greiningum en sú bið getur í sumum tilfellum verið nokkur ár og á meðan fá fjölskyldur ekki viðeigandi aðstoð eða þjónustu sem getur valdið verulegu álagi á fjölskylduna og heimilin.

Aðrar fréttir