Þann 19. júní bárust fréttir af því að Alþjóðasundsambandið (FINA) hefði samþykkt nýjar reglur sem banna trans konum að keppa í kvennaflokki á heimsmeistaramótum í sundgreinum. Sundsamband Íslands (SSÍ) kaus með reglunum þrátt fyrir að þær byggi á mismunun og útilokun á trans fólki, og sérstaklega trans konum.

Í Kastljósviðtali þann 20. júní hélt Björn Sigurðsson, formaður SSÍ, því fram að með þessu atkvæði væri SSÍ ekki að tala um eða við trans börn og konur á Íslandi. Þetta er hreinlega ósatt. Öll sem hafa æft íþróttir með þann draum að verða afreksíþróttafólk vita að sá draumur byrjar á mjög ungum aldri. Þegar íþróttafólki, hvort sem er börnum, unglingum eða fullorðnum, er sagt á þau geti æft eins og þau vilja en að þau muni ekki vera velkomin á afreksmót, þá er það mismunun. Þetta eru nákvæmlega þau skilaboð sem SSÍ hefur sent trans sundfólki á Íslandi, sérstaklega trans konum. Í Kastljósviðtalinu kom einnig í ljós að SSÍ hafði ekki kynnt sér málin til hlítar áður en þau tóku þá afdrifaríku og gildishlöðnu ákvörðun að kjósa með mismunun og fordómum.

Ugla Stefanía Kristjönu- og Jónsdóttir, Inga Auðbjörg K. Straumland, Hans Jónsson, Felix Bergsson og Ólöf Bjarki Antons eru meðal þeirra sem hafa lýst því vel hvernig rökstuðningur SSÍ og FINA er byggður á fölskum vísindum, siðferðislega ámælisverðum aðferðum og villandi forsendum um hvað stuðlar að raunverulegu jafnrétti kvenna í íþróttum. Við ætlum því ekki að eyða frekari orðum í það hér heldur vísum við á þessar greinar.

Þögnin sem ríkt hefur á meðal allra annarra íslenskra íþróttabandalaga, þar á meðal hjá Íþróttasambandi Íslands, varðandi þá afstöðu SSÍ að kjósa með útilokun trans kvenna úr afrekskeppnum er ógnvænleg. Vari þessi þögn mikið lengur er ekki hægt að túlka hana öðruvísi en svo að ÍSÍ (og öðrum íþróttabandalögum og félögum) finnist ekkert ámælisvert við þessa aðför að réttindum trans fólks. Í það minnsta sjá þau ekki ástæðu til að gefa út yfirlýsingu líkt og þau hafa gert um mörg önnur samfélagsleg málefni.

Við getum ekki sæst á að þetta alvarlega mál drukkni í þrúgandi þögn og aðgerðaleysi. Við getum ekki sæst á að íþróttasamfélagið láti eins og ekkert hafi gerst, láti eins og það sé eðlilegt að mismuna einum samfélagshóp á þennan afdráttalausa hátt.

Þar af leiðandi gera undirrituð eftirfarandi kröfur:

  1. Að SSÍ dragi atkvæði sitt til baka. Sé slíkt ekki hægt vegna tæknilegra atriða krefjumst við þess að sambandið gefi út opinberlega yfirlýsingu þar sem það segist ekki lengur geta staðið með atkvæðagreiðslu sinni og biður trans fólk afsökunar.
  2. Að SSÍ lofi að tala fyrir inngildingu og mannréttindum í komandi umræðum og kosningum annarra nefnda (svo sem Ólympíunefndanna, Evrópusamtaka og á norrænum vettvangi), í stað þess að standa fyrir mismunun og útskúfun.
  3. Að Íþróttasamband Íslands fordæmi afstöðu SSÍ og taki opinberlega afstöðu með réttindum trans fólks, þar með talið trans kvenna sem keppa í íþróttum á afreksstigi.

Síðast en ekki síst viljum við hvetja öll önnur íþróttabandalög og -félög á Íslandi að tala opinskátt og opinberlega gegn þeirri stefnu að útiloka trans fólk frá þátttöku í íþróttum, hvort sem það á við um börn eða fullorðna, afreksfólk eða áhugafólk.

Trans fólk á heima í íþróttum án aðgreiningar og án mismununar!

Undirritað:
Argafas, Bangsafélagið, Intersex Ísland, Femínistafélag Háskóla Íslands, Hinsegin Vesturland, Hinsegin Austurland, Kvenréttindafélag Íslands, Kynís – kynfræðifélag Íslands, Q – félag hinsegin stúdenta, Tabú – Femínísk Fötlunarhreyfing, Trans Ísland, Rauða Regnhlífin, Röskva, Samtökin 78, Slagtog – Femínísk sjálfsvörn, Stelpur Rokka, Styrmir Íþróttafélag, WOMEN in Iceland, Öfgar

Aðrar fréttir