Kvenréttindafélag Íslands fordæmir ákvörðun Tyrklands að rifta Istanbúlsamningnum

Kvenréttindafélag Íslands fordæmir ákvörðun Tyrklands að rifta samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi, Istanbúlsamningnum svokallaða.

Ákvörðun Tyrklands að rifta þessum samningi er ekki aðeins aðför að konum heldur einnig að hinsegin fólki, minnihlutahópum og viðkvæmum hópum. Með því er ekki einungis verið að halda aftur af og koma í veg fyrir aukið jafnrétti í þessum löndum, heldur Evrópu allri þar sem ákvörðunin setur hættulegt fordæmi fyrir önnur ríki þar sem mannréttindi og lýðræði standa höllum fæti.

Kvenréttindafélag Íslands lýsir yfir stuðningi við allar þær konur, fólk og femíníska hópa í Tyrklandi sem í áratugi hafa unnið sleitulaust að því að skapa samfélag sem byggist á jafnrétti kynjanna.

Kvenréttindafélag Íslands stendur með systursamtökum sínum í Tyrklandi, Avrupa Kadin Lobisi Turkiye Koordinasyonu, sem eru í framlínunni við að tryggja öryggi kvenna og jafnrétti kynjanna þar. 

Kvenréttindafélag Íslands hvetur íslensk stjórnvöld til að leggja sitt að mörkum að öll ríki Evrópu heiðri og uppfylli samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi og fordæmi ákvörðun Tyrklands í þessu samhengi.