Ný skýrsla Kvenréttindafélagsins: „Að vera kvár á Íslandi: Hvað felst í kynjajafnrétti fyrir kvár?“

Sumarið 2022 vann Birta Ósk rannsókn fyrir Kvenréttindafélagið með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Rannsókninni var ætlað að skoða stöðu kvára í íslensku samfélagi og ber skýrslan heitið „Að vera kvár á Íslandi: Hvað felst í kynjajafnrétti fyrir kvár?“. Hægt er að lesa meira um skýrsluna hér að neðan:

Rannsóknin „Að vera kvár á Íslandi“ eftir Birtu Ósk gefur góða mynd á hver félagsleg staða kvára er á Íslandi í dag. Kvár falla innan regnhlífarhugtaksins trans og eru fullorðnir kynsegin einstaklingar sem falla á einn eða annan hátt fyrir utan kynjatvíhyggjuna kona-karl. Tillögur þessar eru dregnar úr niðurstöðum fyrrnefndar rannsóknar um kerfislægar hindranir sem kvár eru að verða fyrir í dag. Brýnt er að stjórnvöld útrými þessum hindrunum til þess að styðja betur við þarfir kvára í samfélaginu. Þetta er mikilvægt meðal annars til þess framfylgja jafnréttislögum (nr. 150/2020) og lögum um kynrætt sjálfræði (nr. 80/2019).

Tillögur til úrbóta um hvernig megi stuðla að jafnrétti fyrir kvár

  Kerfislægar hindranir kvára Tillögur til úrbóta
1 Ósýnileiki hópsins. Samfélagið gerir ekki ráð fyrir þeim. Aðgerðir til þess að auka sýnileika, umburðarlyndi og jákvæða vitundavakningu um hópinn.
2 Kynjamisrétti kvára vanmetin vegna útilokunar frá skýrslum og rannsóknum á kynjamisrétti. Taka kvár með í kyngreinda tölfræði og rannsóknir á stöðu kynjajafnréttis á Íslandi, á sviði heilbrigðis, menntunar, menningar, o.fl.. Einnig er mikilvægt að fjármagna auknar rannsóknir á stöðu kvára og annars trans fólks.
Stjórnsýsla
3 Kvár veigra sér frá hlutlausri skráningu kyns í þjóðskrá. Heimila val á skráningu kyns á vegabréfi eða gefa kvárum kost á að bera tvö vegabréf.

Endurskoða lög um mannanöfn (nr. 45/1996).

4 Kostnaðarsamt að breyta skráningu nafns og/eða kyns. Fella niður gjöld kvára á leiðréttingu á nafni og kyni í þjóðskrá (9000kr.) og gjöld við breytingu í vegabréfi (13-26.000kr.) og annara skilríkja.
Heilbrigðiskerfi
5 Ferli Trans teymisins er ábótavant. Fjármagna Trans teymið. Sækja ráðgjöf hjá trans og kynsegin fólki við endurskoðun verkferla.
6 Trans teymið er undirmannað. Fjármagna Trans teymið. Auka starfsafl. Ráða trans manneskju inn í teymið og auka fræðslu innan teymisins um málefni kvára.
7 Trans heilbrigðisþjónusta kostnaðarsöm. Endurskoða staðla og fella niður kvaðir Sjúkratryggingar Íslands á heilbrigðisþjónustu trans fólks, sem mismunar sérstaklega kvárum.
8 Kvárum eru mætt skilningsleysi þegar þau sækja almenna heilbrigðisþjónustu. Skylda heilbrigðisstarfsfólk til þess að sitja fræðslu um málefni kvára og annara minnihlutahópa.
Skólakerfi og vinnustaðir
9 Kvár mæta fordómum í skólakerfinu og innan vinnustaða. Almennar aðgerðir fyrir sýnileika kvára. Fræðsla fyrir skólastarfsfólk og starfsfólk opinberra stofnanna.

 

Vitundavakning hefur verið að undanförnu um kvár, þ.e. einstaklinga sem upplifa sig fyrir utan kynjatvíhyggjuna kona-karl, en þrátt fyrir það hafa kvár verið útilokuð úr umræðu um kynjajafnrétti. Rannsókn þessi leitast eftir að svara eftirfarandi spurningum: hverjar eru birtingarmyndir kynjamisréttis sem kvár upplifa? og, hvaða kerfislægu hindranir eru kvár að upplifa? Tekin voru fjögur viðtöl við kvár og þau voru þemagreind. Niðurstöður leiddu í ljós að 1) líf kvára einkennist af ósýnileika að því leiti að samfélagið gerir ekki ráð fyrir þeim, 2) kvárum er eignuð ábyrgð yfir að búa til pláss fyrir sig í samfélaginu og 3) kerfislægum hindrunum. Kerfislægar hindranir eru að finna innan stjórnsýslunnar, heilbrigðiskerfins, skólakerfisins og vinnustaða. Rannsóknin sýnir að umtalsmikil vitundavakning verður að eiga sér stað í samfélaginu um málefni kvára. Rannsóknin var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og unnin í samstarfi við Kvenréttindafélag Íslands.

Meginþemu sem komu úr rannsóknargögnum voru eftirfarandi: 1) Ósýnileiki kvára, sem birtist í því að samfélagið gerir ekki ráð fyrir þeim og 2) Ábyrgð sem sett er á kvár til að skapa eigið pláss í samfélaginu. Þessi tvö meginþemu hafa áhrif á hvort annað og þau hafa bæði sterk áhrif á undirþemað „Kerfislægar hindranir“ sem lýsir þeim kerfislægu hindrunum sem kvár eru að upplifa.

Þessi rannsókn er byrjun á því að rannsaka stöðu kvára á Íslandi í dag og birtingarmyndir kynjamisréttis sem þau verða fyrir. Ljóst er að kvár upplifa talsvert kynjamisrétti í Íslensku samfélagi sem sís konur og karlar upplifa ekki. Jaðarsetning kvára á Íslandi í dag birtist fyrst og fremst í ósýnileika hópsins, þar sem á nær öllum sviðum samfélagsins er ekki gert ráð fyrir hópnum að því leiti að hann er ekki nefndur eða honum jafnvel afneitaður. Ósanngjörn ábyrgð er sett á kvár til þess að búa til pláss í samfélaginu fyrir þau, sem ætti að vera verkefni á herðum forréttindameiri meirihlutahópsins: sís fólk. Þessar birtingarmyndir kynjamisréttis kvára er endurspeglast í kerfislægum hindrunum, sem tengjast skráningu kyns og nafns, heilbrigðiskerfinu, skólakerfinu og vinnustöðum.

Rannsóknarniðurstöður þessar sýna fram á það að nauðsynlegt er að samfélagið allt beiti sér við að stuðla að aukinni jákvæðri vitundavakningu og sýnileika hópsins. Stjórnvöld bera einnig skyldu til þess að huga að kynjajafnrétti fyrir hópinn með því að útrýma kerfislægum hindrunum.

 

Hægt er að lesa skýrsluna í heild sinni hér.