Hæstvirtur dómsmálaráðherra,

Fyrir liggur að gera breytingar á réttarstöðu brotaþola í kynferðisofbeldismálum eins og fram kemur í stjórnarsáttmála og er það fagnaðarefni. Í dag er brotaþoli einungis vitni í eigin máli, en er ekki álitinn aðili að sakamálinu að öðru leyti, sem gerir honum m.a. erfitt að gæta hagsmuna sinna. Rannsóknir sýna að andlegar afleiðingar kynferðisofbeldis eru yfirleitt mun langvinnari en líkamlegir áverkar, sem gróa oftast fljótt. Þar vegur afmennskunin og hlutgervingin þungt, en til að beita kynferðisofbeldi þarf gerandinn að smætta þolandann niður í viðfang til að svala fýsnum sínum á, í stað manneskju með réttindi og rödd.

Færa má rök fyrir því að með núverandi lögum haldi réttarkerfið áfram þessari afmennskun og hlutgervingu, þar sem brotaþoli hefur hvorki sömu réttindi né rödd og sakborningur í eigin máli. Brotaþoli hefur ekki rétt á að gera athugasemdir við þau gögn sem lögregla aflar á rannsóknarstigi málsins. Fari málið fyrir dóm er sakborningi skipaður verjandi, sem honum er frjálst að verja ómældum tíma með til að byggja sterka málsvörn og að auka líkurnar á að fara með sigur af hólmi. Saksóknari hefur það hlutverk að sækja málið fyrir hönd ríkisins, en þar sem brotaþoli er ekki álitinn aðili að málinu er honum meinað að hafa samskipti við saksóknara, nema þá í gegnum réttargæslumann og einungis um afmörkuð atriði sem tengjast ekki sönnunarfærslunni. Þannig ræðir saksóknari, eini aðilinn sem er í aðstöðu til að sanna að brot hafi átt sér stað, aldrei við brotaþolann, manneskjuna sem veit mest um brotið.

Úthýst úr dómssal í eigin réttarhöldum

Brotaþoli hefur ekki rétt á að sitja inni í dómssal eða fylgjast yfir höfuð með réttarhöldum í eigin máli, umfram það að gefa skýrslu. Þannig má brotaþoli ekki hlýða á sinn eigin sálfræðing bera vitni, þrátt fyrir að hafa þurft að veita sérstakt leyfi fyrir að aflétta trúnaði af meðferðarsamstarfi þeirra. Ólíkt sakborningi hefur brotaþoli ekki rétt á að leggja fram viðbótarsönnunargögn eða greinargerð, hann má ekki spyrja ákærða og vitni spurninga, né koma með athugasemdir á eftir saksóknara. Brotaþoli hefur ekki sama rétt og sakborningur til að taka til máls í lok aðalmeðferðar og má ekki áfrýja máli. Saksóknari fer með áfrýjunarvaldið fyrir hönd brotaþola, en brotaþoli fær enga aðkomu að því ferli og á ekki rétt á rökstuðningi fyrir ákvörðun saksóknara.

Hafi málsmeðferðin tekið langan tíma eru þau óþægindi og sú óvissa sem þetta olli sakborningi gjarnan viðurkennd í formi mildari refsingar, í þeim tilvikum þar sem málinu lýkur með sakfellingu. Brotaþoli fær hins vegar ekki dæmdar bætur frá ríkinu vegna langrar málsmeðferðar og er þannig viðurkenning réttarkerfisins á eigin lélegu frammistöðu gerð á kostnað brotaþolans, þrátt fyrir að hann hafi lifað við sömu óþægindi og óvissu jafn lengi og sakborningurinn. Á sama hátt hefur brotaþoli engan rétt á upplýsingum eftir að dómsmáli lýkur, til dæmis hvað varðar að hinn dæmdi hefji afplánun, fái leyfi úr fangelsi eða strjúki úr því, né hvenær afplánun hans lýkur. Allt stafar þetta af þeirri grundvallarafstöðu réttarkerfisins til brotaþola sem vitnis, sem kemur málið ekki meira við en nokkru öðru vitni, enda er hann ekki aðili að því.

Réttarkerfið viðheldur valdaójafnvæginu

Réttarkerfið vinnur eftir þeirri grunnreglu að fólk sé saklaust uns sekt er sönnuð. Fyrir brotaþola þýðir þetta að orð hans eru véfengd á öllum stigum máls, sem getur spannað mörg ár sökum hægagangs hjá lögreglu og í réttarkerfinu. Sú staðreynd er nægilega þungbær til þess að margir þolendur treysta sér ekki til að kæra ofbeldisbrot. Áhrifin af þessu magnast enn frekar ef í ofanálag er komið fram við brotaþola eins og aðila sem er málið óviðkomandi, en sakborningi býðst aftur á móti að hafa bein áhrif á ferlið og taka ákvarðanir sem brotaþolinn neyðist til að una við, þegjandi og hljóðalaust. Þannig getur réttarkerfið viðhaldið því valdaójafnvægi milli sakborningsins og brotaþolans sem ofbeldið sjálft fól í sér. Það er ekki að ástæðulausu sem dómsmál eitt og sér getur valdið áfallastreitu hjá brotaþolum, eða dýpkað þá andlegu áverka sem fyrir eru.

Á skjön við önnur Norðurlönd

Hjá nágrönnum okkar í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi ríkir skilningur á því að kynferðisbrot eru í hæsta máta persónuleg fyrir þolendur og að skortur á þeirri viðurkenningu sé þeim skaðleg og standi í vegi fyrir bata þeirra. Þarlendis er litið svo á að brotaþolar hafi skýra og lögmæta hagsmuni í sakamáli og hafi því réttmæta þörf til að gæta hagsmuna sinna á meðan á málsmeðferð stendur. Brotaþolar eru því aðilar að eigin kynferðisbrotamálum, eða njóta að mestu sambærilegra réttinda og sakborningar. Það var mikið fagnaðarefni þegar ofangreind dæmi um takmörkuð réttindi brotaþola á Íslandi voru tekin til greina í tillögum Hildar Fjólu Antonsdóttur réttarfélagsfræðings sem hún vann fyrir stýrihóp forsætisráðherra um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi. Niðurstaða stýrihópsins var sú að veita ætti brotaþolum hérlendis aðild að eigin málum, eða í það minnsta veita þeim öll þau helstu réttindi sem sakborningar hafa, sem myndi leiðrétta áðurnefndan aðstöðumun. Stýrihópurinn taldi einnig þörf á möguleikanum að draga ríkið til ábyrgðar ef brotið er á rétti brotaþola til réttlátrar málsmeðferðar, og að greiða þyrfti aðgang brotaþola að viðurkenningu og bótum í einkarétti.

Vonbrigðin voru gífurleg þegar þetta grundvallaratriði um málsaðild brotaþola rataði ekki inn í frumvarp dómsmálaráðherra, sem lagt var fyrir á síðasta þingi. Ljóst er að ef frumvarpið verði leitt í lög í óbreyttri mynd munu brotaþolar halda áfram að standa utan við eigin mál, vanmáttugir og valdalausir. Öll helstu félagasamtök sem vinna með þolendum á Íslandi mótmæltu þessu í umsagnarferli frumvarpsins. Verði það samþykkt engu að síður glatast ómetanlegt tækifæri til að gera réttarkerfið mannúðlegra í garð þolenda. Einungis brotabrot af kynferðisbrotamálum rata inn á borð yfirvalda í dag, sem er skiljanlegt í ljósi þess hve þungbært kæruferlið reynist mörgum brotaþolum.

Að jafna, ekki veikja, hlut beggja

Þau gagnrök hafa heyrst að styrking á réttarstöðu brotaþola myndi veikja réttarstöðu sakborninga. Þetta stenst ekki skoðun, því málið snýst um að veita brotaþolum þau réttindi sem sakborningur hefur nú þegar. Því er ekki verið að ganga á hlut sakborninga, einungis að jafna stöðu þeirra. Í nútímasamfélagi er það grunnskilyrði fyrir góðri og traustri málsmeðferð að einstaklingar fái upplýsingar um mál sem þá varða og fái að hafa eitthvað um þau að segja. Sakamál geta ekki verið undanskilin þeirri reglu.

Hæstvirtur dómsmálaráðherra, við skorum á þig að endurskoða frumvarpið um réttarstöðu brotaþola þannig að þolendum verði veitt aðild að eigin kynferðisbrotamálum, ellegar sambærileg réttindi sem sakborningar hafa. Annað veldur ólíðandi aðstöðumun sem dregur úr líkum þess að brotaþolar leiti réttar síns og grefur undan getu samfélagsins til að uppræta það samfélagsmein sem kynferðisofbeldi er.

Aflið – samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi
Druslugangan
Femínistafélag Háskóla Íslands
Kvenfélagasamband Íslands
Kvennahreyfing Öryrkjabandalags Íslands
Kvennaráðgjöfin
Kvenréttindafélag Íslands
NORDREF – Nordic Digital Rights and Equality Foundation
Rótin – félag um konur, áföll og vímugjafa
Samtök um kvennaathvarf
Stígamót
UN Women á Íslandi
Öfgar