Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, þingskjal 99, 99. mál, 150 löggjafarþing


Kvenréttindafélag Íslands lýsir yfir stuðningi við þetta frumvarp sem felur í sér að lífeyrissjóðir setji sér jafnréttisstefnu sem nái til fjárfestinga sjóðsins. 

Jöfn þátttaka kynjanna í ákvarðanatöku í samfélaginu er grundvallarforsenda lýðræðis, og því miður er það enn svo að í íslensku atvinnulífi hallar mjög á konur í stjórnunarstöðum. 

Eins og kemur fram í greinargerð með þessu frumvarpi er samfélagslegt hlutverk lífeyrissjóða nú þegar endurspeglað í 36. gr. laga um starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 sem kveður á um að lífeyrissjóður skuli hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi og setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum. Telur Kvenréttindafélag Íslands mikil bót ef skerpt verði á þessum lögum svo að lífeyrissjóðir setji sér jafnréttisstefnu og framfylgi henni, og þurfi að skýra sérstaklega forsendur þess ef ákveðið er að fjárfesta í fyrirtækjum þar sem kynjahalli er verulegur meðal æðstu stjórnenda. 

Ef öll fyrirtæki, stofnanir og stjórnvöld leggjast saman á árar, er hægt að knýja fram nauðsynlegar breytingar til að auka jafnrétti kynjanna og tryggja framtíð komandi kynslóða.

Aðrar fréttir