Efni: Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um áform um lagasetningu um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnunar, mál nr. S-76/2019, dómsmálaráðuneytið.

19. mars 2019
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands fagnar áformum um lagasetningu að koma á laggirnar sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun til samræmis við ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 48/134 um innlendar mannréttindastofnanir (National Human Rights Institutions) og Parísarreglur þeirra um stöðu og verksvið slíkra stofnana.

Kvenréttindafélag Íslands er eitt af aðildafélögum Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ), sem sinnir helstu verkefnum innlendrar mannréttindastofnunar á Íslandi. Skrifstofan hefur frá upphafi komið, og kemur enn, fram fyrir Íslands hönd á vettvangi Evrópuráðsins og hjá Sameinuðu þjóðunum. Skrifstofan er fulltrúi Íslands í norrænu samstarfi og í Evrópusamtökum mannréttindastofnana.

Frá stofnun MRSÍ árið 1994 hefur það verið yfirlýst markmið aðildarfélaga hennar að skrifstofan fái stöðu innlendrar, sjálfstæðrar mannréttindastofnunar.  Sem eitt aðildarfélaga að MRSÍ hvetur Kvenréttindafélag Íslands til þess að reynsla, þekking, tengslanet og í raun öll starfsemi MRSÍ verði nýtt við stofnun innlendar mannréttindastofnunar enda væri það stjórnvöldum til mikils hagræðis, sparar jafnt umtalsverðan kostnað, vinnu, tengslamyndun o.fl.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur ennfremur til þess að stjórnvöld tryggi að ný og sjálfstæð mannréttindastofnun sé nægilega stöndug til að sinna allri mannréttindagæslu í íslensku samfélagi. Í mati á áhrifum lagasetningarinnar sem fram kemur í samráðsgáttinni (lið G), er áætlað að aðeins þrír starfsmenn skuli starfa hjá mannréttindastofnuninni. Dregur Kvenréttindafélagið stórlega í efa að þetta sé nægilegur starfsmannafjöldi til að anna öllum þeim verkefnum sem stofnuninni ber að sinna.