Efni: Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, 146. löggjafarþing 2016–2017. Þingskjal nr. 568 – 435. mál.


Kvenréttindafélag Íslands lýsir almennri ánægju yfir frumvarpi til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð eða kynvitund. Kvenréttindafélagið fagnar því að frumvarpið fjalli bæði um beina og óbeina mismunun. Þótt ekki sé fjallað um fjölþætta mismunun með beinum hætti í frumvarpinu túlkar Kvenréttindafélagið frumvarpið á þá leið að það geti tekið á slíkri mismunun. E.t.v. væri gott að fjalla um fjölþætta mismunun með einhverjum hætti í athugasemdum við frumvarpið.

Sérstaklega viljum við fagna því að í frumvarpinu sé krafist jafnrar meðferðar á vinnumarkaði óháð kynvitund. Í greinargerð við frumvarpið kemur fram að ekki er fjallað um mismunun á grundvelli kynvitundar í tilskipun Evrópusambandsins sem m.a. er til grundvallar þessu frumvarpi. Er ánægjulegt að sjá að hér standi Ísland framar nágrannaþjóðum sínum í jafnréttismálum.

Athugasemdir við 1. grein: Gildissvið laganna

Kvenréttindafélagið fagnar því að með frumvarpinu séu teknar inn fleiri breytur mismununar og lagt bann við mismunun á grundvelli þeirra. Kvenréttindafélagið telur þó að gildissvið laganna sé ekki tæmandi og leggur til að lögin gildi einnig um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð holdafari og líkamsgerð.

Í lokaverkefni Töru Margrétar Vilhjálmsdóttur sem unnið var til MA–gráðu í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands árið 2012 fer höfundur yfir margvísleg áhrif fitufordóma á stöðu einstaklinga í samfélaginu og rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessum áhrifum, þ.á.m. áhrifum holdafars á atvinnuþátttöku og stöðu á vinnumarkaði. (Sjá: „Pepsi Max fituhlunkar“: Samfélagsleg greining á fitufælni og afleiðingum hennar“ eftir Töru Margréti Vilhjálmsdóttir, 2012.)

Tara bendir m.a. á íslenska rannsókn Tinnu Laufeyjar Ásgeirsdóttur frá árinu 2007 þar sem kom í ljós að líkamsþyngd hefði marktæk áhrif á það hvort íslenskar konur væru í fastri vinnu en engin slík áhrif fundust fyrir karla.

Tara greinir einnig frá erlendum rannsóknum sem hafa verið gerðar á áhrifum holdafars á stöðu á vinnumarkaði. Í bandarískri rannsókn frá árinu 1990 var svarendum flokkað í þrjá flokka eftir þyngd og hæð, „kjörþyngd“, „feitir“ og „mjög feitir“. Í ljós kom að 62% mjög feitra kvenna, 43% mjög feitra karla og 31% feitra kvenna höfðu upplifað það að vera hafnað um starf vegna þyngdar sinnar. Enginn þeirra þátttakenda sem voru í kjörþyngd höfðu upplifað slíkt hið sama og var munurinn marktækur. Í evrópskri rannsókn frá 2007 voru áhrif líkamsþyngdar á tekjur rannsakaðar í Danmörku, Belgíu, Írlandi, Ítalíu, Grikklandi, Spáni, Portúgal, Austurríki og Finnlandi. Í ljós kom að hærri líkamsþyngdarstuðull hafði í för með sér marktækt lægri tekjur og fóru tekjur lækkandi eftir því sem líkamsþyngarstuðullinn varð hærri. Þessar tölur benda einnig til þess að líklegra sé að konum sé mismunað vegna líkamsþyngdar en körlum.

Sambærilegar rannsóknir hafa ekki verið gerðar hér á landi, svo Kvenréttindafélag Íslands viti til, en engin ástæða er að halda að við skerum okkur hér úr frá nágrannaþjóðum okkar. Því er klárlega brýn nauðsyn að víkka gildissvið þessara laga svo að þau nái einnig til mismununar á vinnumarkaði byggða á líkamsgerð.

Við bendum á í þessu samhengi að í nýjustu mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, samþykkt árið 2016, er óheimilt að mismuna fólki vegna holdafars, útlits eða líkamsgerðar. Sjötti kafli mannréttindastefnunnar fjallar ítarlega um mismunun vegna holdafars og líkamsgerðar (sjá Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, samþykkt 18.10.2016).

Athugasemdir við 3. grein: Orðskýringar

Kvenréttindafélagið telur að orðskýring hugtaksins „kynhneigð“ í 3. grein laganna sé of þröng, en skv. 13. mgr. þeirrar greinar er „kynhneigð“ útskýrt sem „gagnkynhneigð, samkynhneigð eða tvíkynhneigð“. Við bendum á að á vefsíðu Samtakanna ’78, hagsmuna- og baráttusamtaka hinsegin fólks á Íslandi, er „kynhneigð“ sögð vera: gagnkynhneigð, samkynhneigð, tvíkynhneigð, pankynhneigð og asexúal (sjá: „Hvað er kynhneigð?“ á síðu Samtakanna  ’78).

Hvað skilgreiningu á hugtakinu „kynvitund“ varðar leggur Kvenréttindafélagið til að það sé skilgreint sem „upplifun einstaklinga á eigin kyni“ fremur en að notast við hugtakið kynferði, sem er villandi og almennt ekki mikið notað.

Athugasemdir við 5. grein: Jafnréttisstofa

Kvenréttindafélagið hefur áhyggjur af eftirfylgd laganna verði frumvarpið samþykkt, en gert er ráð fyrir því að þeim sé framfylgt af Jafnréttisstofu. Í greinargerð við frumvarpið er gerð grein fyrir því að innan útgjaldaramma Jafnréttisstofu hafi verið gert ráð fyrir kostnaði sem leiðir af lögfestingu frumvarpsins og að ekki sé talin ástæða til þess að það hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Kvenréttindafélag Íslands telur að ef Jafnréttisstofu er ætlað að sinna þeim skyldum sem fram koma í þessu frumvarpi til viðbótar við núverandi skyldur, þurfi að tryggja og treysta stoðir hennar verulega.

Teljum við nauðsynlegt að:

  1. að fjölga starfsmönnum Jafnréttisstofu til muna og bæta við sérfræðingum í þeim nýju málaflokkum sem henni er nú ætlað að sinna;
  2. að auka nálægð Jafnréttisstofu við stjórnsýslu ríkisins. Við teljum bráðnauðsynlegt að fjölga starfsmönnum Jafnréttisstofu sem staðsettir eru í Reykjavík til muna. Nauðsynlegt er fyrir stofnun sem sinnir svo mikilvægum málaflokki sem jafnréttismálum að vera í mikilli nálægð við þau ráðuneyti, stofnanir, frjáls félagasamtök og aðila vinnumarkaðarins sem staðsett eru á höfuðborgarsvæðinu;
  3. að tryggja það að starfsemi Jafnréttisstofu sé á landsvísu. Vinnueftirlitið er dæmi um stofnun hefur starfsmenn í níu sveitarfélögum á landinu. Teljum við að starf Jafnréttisstofu sé síst veigaminna en starf Vinnueftirlitsins og hvetjum við til þess að opnaðar verði skrifstofur Jafnréttisstofu í öllum landsfjórðungum og þar með tryggt að Jafnréttisstofa geti sinnt skyldum sínum við eftirlit, fræðslu og upplýsingastarfsemi á landinu öllu.

 

Athugasemdir við 7. gr. – Almennt

Kvenréttindafélagið fagnar því að lagðar séu skyldur á herðar atvinnurekenda og stéttarfélaga að vinna markvisst gegn mismunun í starfi sínu. Forvarnir og fræðsla eru gríðarlega mikilvægur þáttur þegar kemur að jafnréttismálum.

Kvenréttindafélagið telur mikilvægt að bæði atvinnurekendum og almenningi sé kynnt efni frumvarpsins því það verndar mikilvæg réttindi. Sú fræðsla gæti verið í höndum stéttarfélaga og annarra aðila og gæti Jafnréttisstofa veitt ráðgjöf.

Athugasemdir við 13. gr. – Vernd gegn órétti í starfi

Kvenréttindafélagið fagnar því að starfsmönnum sem kvarta yfir eða kæra á grundvelli frumvarpsins sé veitt vernd gegn uppsögnum. Kvenréttindafélagið leggur áherslu á að atvinnurekendum sé kynnt efni laganna, og ekki síst þessa ákvæðis, svo tryggt sé að það virki í framkvæmd.

Athugasemdir við 15. gr. – Sönnunarbyrði

Kvenréttindafélagið fagnar því að sönnunarbyrði í málum er varða brot á lögunum sé færð frá þeim sem telur á sér brotið til meints geranda. Telja má að í nær öllum tilvikum verður um orð einstaklinga, oft starfsmanna, gegn atvinnurekanda og getur reynst á brattann að sækja. Því er mikilvægt að lögfesta þessa reglu varðandi sönnunarbyrði.

10. maí 2017
Hallveigarstöðum, Reykjavík