Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um tillögu til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, 409. mál.

11. janúar 2019
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Kvenréttindafélagi Íslands hefur borist til umsagnar aðgerðaráætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess fyrir árin 2019 til 2022. Félagið fagnar því að þessi áætlun sé lögð fram en mótmælir því hve litlu fjármagni hefur verið gert ráð fyrir til hennar.

Í áætluninni er sagt frá verkefnum sem mörg hver eru mikilvæg og þörf, og því er illskiljanlegt að sjá hve litlu fjármagni hefur verið áætlað til þeirra næstu fjögur árin. Í aðgerðaráætluninni er ráðstafað 293 milljónum til næstu fjögurra ára til baráttunnar gegn ofbeldi, þar af aðeins 45 milljónum á þessu ári. Þessi upphæð er skammarlega lág, þegar litið er til umfangs vandamálsins sem ætlað er að bregðast við.

Í rannsókn Embættis landlæknis Heilsa og líðan Íslendinga sem gerð var 2017 kemur fram að 36,8% fólks á Íslandi hafa orðið fyrir ofbeldi á lífstíðinni, 37% karla og 41,1% kvenna. Þarf af höfðu 17,9% fólks á Íslandi hafði orðið fyrir líkamlegu ofbeldi, 27,5% karla og 40,2% kvenna; 13,4% fólks á Íslandi hafði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, 6,9% karla og 23,9% kvenna; og 27% fólks á Íslandi hafði orðið fyrir sálrænu ofbeldi, 28,5% karla og 35,5% kvenna. Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar Áfallasaga kvenna sem nú er unnin í Háskóla Íslands voru svo birtar í nóvember 2018, en þar kemur fram að fjórðungur kvenna hefur orðið fyrir nauðgun eða nauðgunartilraun á lífsleiðinni og sama hlutfall hefur verið beitt líkamlegu ofbeldi. Þessar rannsóknir og fleiri benda til þess að ofbeldi gegn konum og körlum og fólki öllu er landlægt og skelfilega algengt á Íslandi.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að aðgerðaráætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess verði stórefld og að stjórnvöld sýni stórhug í að bregðast við þessu samfélagsmeini.

Bjarkarhlíð og ný þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi

Kvenréttindafélag Íslands lýsir yfir ánægju með að sérstaklega er áætlað að styrkja Bjarkarhlíð til að festa þá starfsemi í sessi (C1) og til að stofna nýja þjónustumiðstöð þolenda ofbeldis á Akureyri (C3). Að sama skapi teljum við að sá fjárstuðningur sem ætlaður eru þessum tveimur mikilvægu aðilum sé of lítill. Bjarkarhlíð er skráður samstarfsaðili fjölda verkefna sem fram koma í þessari áætlun. Því er nauðsynlegt að tryggja Bjarkarhlíð nægilegt fjármagn til að framkvæma þessi verkefni. Að sama skapi er í áætluninni aðeins gert ráð fyrir að styrkja þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi árið 2019 og 2020. Erfitt er að ímynda sér að þörfin fyrir slíka miðstöð verði horfin eftir tvö ár, og því erfitt að skilja af hverju fjármögnun sé ekki tryggð út gildistíma þessarar áætlunar.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að fjárstuðningur til Bjarkarhlíðar verði efldur til að tryggja starfsemi hennar og þátttöku í verkefnum gegn ofbeldi.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að fjárstuðningur til þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur á Norðurlandi verði efldur til að tryggja starfsemi hennar út árið 2022.

#MeToo

Í áætluninni er gert ráð fyrir aðgerð til að endurskipuleggja kennslu í grunn- og framhaldsskólum í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað í samfélaginu undir myllumerkinu #MeToo, þar með talin kennsla til nemenda, kennara og annarra sem vinna með börnum (A6) og aðgerð til að stuðla að vitundarvakningu um einelti og ofbeldi á vinnustöðum með það að markmiði að 60% vinnustaða hafi gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað í lok árs 2020 (A9).

Báðar þessar aðgerðir eru lofsverðar, en illmögulegt að sjá hvort þær komi að gagni þar sem svo litlu fjármagni er ætlað til þeirra. Í áætluninni er aðeins gert ráð fyrir einni og svo tveimur milljónum króna árlega til að endurskipuleggja kennslu í öllum grunn- og framhaldsskólum á landinu og 20 milljónum króna til vitundarvakningar um einelti og ofbeldi á vinnustöðum, þar af ekkert árið 2019.

#MeToo byltingin á Íslandi hefur afhjúpað risastórt lýðheilsuvandamál sem stjórnvöldum ber að bregðast við af stórhug og einurð. Í þessu samhengi bendir Kvenréttindafélag Íslands á að nágrannar okkar í Svíþjóð veittu 120 milljón sænskum krónum eða 1,6 milljarði íslenskra króna til baráttunnar gegn #MeToo, aðeins fyrir árið 2018.

Einnig vekur það undrun að í aðgerð A9 sem ætlað er að ná til aðila vinnumarkaðarins er aðeins einn tilgreindur samstarfsaðili, Vinnueftirlitið, en ekki er litið til samstarfsaðila á vinnumarkaði, svo sem Jafnréttisstofu, samtaka launafólks, Samtaka atvinnulífsins eða Félags kvenna í atvinnulífinu.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur íslensk stjórnvöld að bregðast af fullum krafti við kynferðislegu áreiti og ofbeldi á vinnumarkaði og vísar til yfirlýsingar samstöðufunda tugþúsunda kvenna sem haldnir voru í 16 sveitarfélögum þann 24. október 2018: „Við krefjumst þess að fá að vinna vinnuna okkar án áreitni, ofbeldis og mismununar, og að stjórnvöld, atvinnurekendur og stéttarfélög grípi til aðgerða til að koma í veg fyrir og taki af festu á kynferðislegu ofbeldi og áreitni á vinnumarkaði.“

Skortur á sértækum aðilum fyrir viðkvæma hópa og skortur á samráðsaðilum

Í áætluninni er ekki að finna fjármögnun til stórhuga, sértækra úrræða fyrir aðgreinda hópa, svo sem aldraða, hinsegin fólk, fatlað fólk, fólk af erlendum uppruna eða fólk með fíkn. Gert er ráð fyrir hagsmunagæslu aldraðra þegar grunur leikur á að þeir séu beittir ofbeldi (C8) án sérstaks fjármagns, fræðslu um ofbeldismál fyrir þá sem starfa innan réttarvörslukerfisins þ.á.m. um sérstöðu tiltekinna viðkvæmra hópa (B1) án fjármagns. Aðeins eitt fjármagnað verkefni er að finna í áætluninni þar sem sérstök áhersla er lögð á að „nái til fatlaðs fólks, aldraðra og fólks af erlendum uppruna“, bæklingur um ofbeldi og úrræði í kjölfar ofbeldis sem ætlað er 4 milljónir króna árið 2020.

Það vekur athygli að lítið samráð var haft við almannaheillasamtök og hagsmunasamtök viðkvæmra hópa við gerð þessarar aðgerðaráætlunar. Í greinargerð kemur fram að áætlunin er unnin m.a. samkvæmt hugmyndum fjölmenns vinnuhóps stofnana og félagasamtaka sem haldin var 28. janúar 2016, fyrir þremur árum og tveimur ríkistjórnum síðan. Hefði verið æskilegt að fleiri fundir hefðu verið haldnir með hagsmunaaðilum síðustu þrjú árin til að útfæra nánar þær hugmyndir sem kviknuðu á þeim fundi.

Í greinargerð með áætluninni er talið upp hverjir hafa fundað með stýrihóp sem vann að áætluninni, en þar vantar t.d. Samtökin ‘78, Tabú, Öryrkjabandalagið og kvennahreyfingu ÖBÍ, Samtök kvenna af erlendum uppruna – W.O.M.E.N. in Iceland, Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda, Kvennaathvarfið, Stígamót, Kvennaráðgjöfina, Aflið, og fleiri. Víðtækara samráð við frjáls félagasamtök hefði eflaust skerpt þessa áætlun til muna og tryggt metnaðarfyllri aðgerðir sem ná til allra hópa samfélagsins.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að halda árlegan samráðsfund um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess (C12), sem er prýðileg hugmynd til að efla samráð stjórnvalda og frjálsra félagasamtaka í ofbeldismálum, en þeim fundi er aðeins ætlað 1 milljón króna árlega í fjármagn. Þessi fjármögnun er engan vegin nægileg til að halda þess lags fundi svo að vel fari á og raddir allra fái að heyrast, því nauðsynlegt er að tryggja aðgengi að fundunum með tilliti til aðgengi fatlaðra, túlkun á táknmál og erlend mál ef nauðsyn þykir, stafræna deilingu og ferðastyrkjum til frjálsra félagasamtaka úti á landi sem ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að fjármagna ferð sína á þessa fundi.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur stjórnvöld til að stórefla aðgerðir gegn ofbeldi gagnvart viðkvæmum hópum samfélagsins, svo sem öldruðum, hinsegin fólki, fötluðu fólki, fólki af erlendum uppruna eða fólki með fíkn.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur stjórnvöld til að starfa náið með frjálsum félagasamtökum sem berjast gegn ofbeldi á öllum sviðum samfélagsins og tryggja aðgengi allra að árlegum samráðsfundi um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

Stafrænt ofbeldi og stafrænt kynferðisofbeldi

Í áætluninni er ekki að finna sérstakt verkefni sem tekur á stafrænu ofbeldi, sívaxandi og grafalvarlegt vandamál í samfélaginu, ofbeldi sem „getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola“ og er „sérstaklega varhugavert í ljósi þess að ofbeldið fer fram fyrir opnum tjöldum og hefur þannig áhrif á samfélagslega stöðu brotaþola“ eins og fram kemur í frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi um ný lög gegn stafrænu kynferðisofbeldi (þingskjal 15, 15. mál).

Í verkefni A6 „Kennsla um kynheilbrigði og kynhegðun verði efld í grunn- og framhaldsskólum“ er áætlað að nemendum í grunn- og framhaldsskólum fái fræðslu til að stuðla að því að „einstaklingar taki ábyrga afstöðu til […] eigin framkomu á netmiðlum og birtingu myndefnis“, meðal annars. Þessari fræðslu, sem ætlað er að taki til allra grunn- og framhaldsskóla á landinu, er ætlað 1 milljón króna árlega, fjárstuðningur sem varla dugir til þeirrar fræðslu.

Í áætluninni er ekki er gert ráð fyrir aðgerðum til að styðja þolendur stafræns kynferðisofbeldis, aðgerðum til að fræða aðila í réttarvörslukerfinu um þessa nýja birtingarmynd ofbeldis, svo sem lögreglu, réttargæslumönnum og dómurum, eða aðgerðum til að efla vitund almennings á eðli og skaðsemi stafræns kynferðisofbeldis. Í greinargerð með þessari áætlun er þetta ofbeldi jafnvel kallað „hefndarklám“, hugtak sem er bæði úrelt og misvísandi, í stað þess að nefna þetta stafrænt ofbeldi eða stafrænt kynferðisofbeldi.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur stjórnvöld til að stórefla aðgerðir gegn stafrænu ofbeldi og stafrænu kynferðisofbeldi og sýna stórhug í að tryggja öryggi okkar allra á öllum sviðum samfélagsins.

Aðgerðir gegn mansali

Í aðgerðaráætluninni er að finna aðeins tvö verkefni sem beinlínis taka til mansals, C10 – „Samræmd velferðarþjónusta fyrir þolendur mansals fest í sessi“ og C11 – „Leiðbeinandi reglur um velferðarþjónustu fyrir þolendur mansals“. Aðeins þrjár milljónir árlega eru ætlaðar þessum tveimur verkefnum, sem hlýtur að vera of lágt fjármagn til þessa mikilvæga málaflokks, sérstaklega í ljósi þess að síðasta aðgerðaráætlun gegn mansali rann úr gildi árið 2016.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur stjórnvöld til að stórefla aðgerðir gegn mansali og til stuðnings þolenda mansals í þessari áætlun, og hvetur að sama skapi stjórnvöld til að skrifa og staðfesta sérstaka aðgerðaráætlun gegn mansali.

Sáttamiðlun í ofbeldismálum

Kvenréttindafélag Íslands furðar sig á að í áætluninni sé gert ráð fyrir aðgerð sem snýr að því að þróa leiðir til sáttamiðlunar í ofbeldismálum (B4). Hafa akademískir sérfræðingar í ofbeldismálum sem og Evrópuráðið, svo dæmi séu tekin, alfarið snúið sér gegn þeirri aðferð, með tilliti til þolanda. Í eðli sínu eru ofbeldisbrot, sér í lagi kynferðisbrot, ekki ósætti heldur alvarlegur glæpur. Ekki er hægt að líta á geranda/gerendur annars vegar og þolanda/þolendur hins vegar sem einstaklinga sem geta sest niður sitt sátt sem jafningjar.

Kvenréttindafélag Íslands leggur til að stjórnvöld endurskoði aðgerðir um sáttamiðlun í sakamálum og snúi stefnu sinni að leiðbeinandi vinnulagi Evrópusambandsins að nálgast ofbeldisbrot úr frá uppbyggjandi réttivísi fyrir þolanda (Sjá tilskipun Evrópusambandsins nr. 2012/29/EB, einkum 12. grein).

Kynjafræði að skyldufagi á öllum skólastigum

Aðeins með markvissri fræðslu í jafnrétti og kynjafræði ráðumst við á rót kynbundins ofbeldis í samfélaginu.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að kynjafræði verði gerð að skyldufagi á öllum skólastigum, leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum og að kennsla í kynjafræði verði einnig gerð að skyldufagi öllum kennaranemum á landinu.