Efni: Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með síðari breytingum (jafnlaunavottun), 146. löggjafarþing 2016–2017. Þingskjal nr. 570 – 437. mál.


Kvenréttindafélag Íslands fagnar viðleitni Alþingis og stjórnvalda til þess að sporna við kynbundnum launamun. Lög sem eiga að tryggja sömu kjör fyrir sambærileg störf hafa verið í gildi á Íslandi áratugum saman, en þrátt fyrir það mælist kynbundinn launamunur í öllum rannsóknum og alltaf hallar á konur.

Kvenréttindafélag Íslands telur að útrýming kynbundins launamunar sé mikilvægur þáttur í því að koma á jafnrétti á íslenskum vinnumarkaði, en leggur einnig áherslu á grípa þarf til frekari aðgerða til að koma á jafnrétti. Má þar t.d. nefna að vinnumarkaður á Íslandi er mjög kynskiptur. Stórar kvennastéttir, svo sem í menntakerfinu og umönnunarstéttir, eru almennt á lágum launum, á meðan stéttir þar sem karlar eru í meirihluta eru oft á mun hærri launum. Ekki verður séð að þessum kynbundna launamun verði útrýmt með frumvarpinu. Þá er launaleynd einnig beitt víða á vinnumarkaði, þrátt fyrir að jafnréttislögin banni launaleynd, og er nauðsyn að kynna fólki á launamarkaði rétt sinn á að greina frá launum sínum og kynnast launakjörum í sinni stétt.

Jafnlaunavottunin er stórt skref í áttina að því að jafna út kynbundinn launamun og jafnréttisstaðallinn er nýtt verkfæri í jafnréttisbaráttunni. Kvenréttindafélag Íslands hefur ýmsar athugasemdir við frumvarpið eins og það liggur fyrir, en hvetur til þess að það fái jákvæða meðferð í þinginu.

Gagnsæi í framkvæmd vottunar

Kvenréttindafélag Íslands leggur áherslu á að vottunarferlið og gögnin sem jafnlaunavottunin byggir á, þ.á.m. mat á störfum, verði gagnsæ og aðgengileg starfsmönnum fyrirtækja sem undir lögin falla. Staðalinn þarf að kaupa, en gögnin sem verða til við innleiðingu hans ættu hiklaust að vera aðgengileg öllum starfsmönnum.

Skv. staðlinum á tölfræði ekki að vera persónugreinanleg og því væri hægt að tryggja aðgang að gögnum án þess að fórna persónuvernd. Eins og fram kemur hér að ofan er Kvenréttindafélagið á þeirri skoðun að afnema ætti launaleynd með öllu. Launaleynd beitt víða á vinnumarkaði, þrátt fyrir að jafnréttislögin banni launaleynd, og er nauðsyn að uppræta kröfur vinnuveitenda á launaleynd starfsmanna sinna. Þá myndi aðgangur að gögnum úr ferli jafnlaunavottunar ekki valda vandræðum.

Kvenréttindafélagið telur einnig mikilvægt að starfsmenn skilji hvernig jafnlaunastaðallinn virkar, og verður að tryggja að fyrirtækjum, stéttarfélögum og öðrum aðilum sé heimilt að miðla þeim upplýsingum.

Vottunaraðilar

Kvenréttindafélagið hefur áhyggjur af því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að fyrirtæki með fjölda starfsmanna á bilinu 25 – 99 geti sleppt því að undirgangast jafnlaunavottun bærs aðila skv. 1. gr. c staðalsins, og í stað þess leitast eftir staðfestingu á að kröfur séu uppfylltar hjá hagsmunaaðilum, s.s. fulltrúum starfsmanna, sbr. 1. gr. b staðalsins.

Tillaga Kvenréttindafélags Íslands:
Kvenréttindafélag Íslands leggur til að öll fyrirtæki óháð stærð gangist undir vottun frá aðilum skv. 1. gr. c lið staðalsins.

Eftirlit með jafnlaunavottun

Kvenréttindafélag Íslands hefur athugasemdir við hlutverk Jafnréttisstofu og aðila vinnumarkaðarins þegar kemur að eftirliti með lögunum, skv. frumvarpinu.

Kvenréttindafélagið sér fyrir sér að aðkoma samtaka aðila vinnumarkaðarins, sérstaklega stéttarfélaga, geti verið gríðarlega mikilvæg þegar kemur að því að innleiða jafnlaunastaðalinn og meta störf á grundvelli hans. Þá er mikilvægt að gott samstarf sé á milli Jafnréttisstofu og stéttarfélaganna, þar sem nálægð stéttarfélaganna við fyrirtækin er mun meiri.

Hvað eftirlit með lögunum varðar þá hefur Kvenréttindafélagið þó áhyggjur af því að með frumvarpinu sé komið á tvöföldu kerfi þar sem samtök aðila vinnumarkaðarins fara með hluta eftirlitsins, þ.e. að sjá til þess að fyrirtæki öðlist vottun, og Jafnréttisstofa hluta, þ.e. að halda skrá yfir fyrirtæki og stofnanir sem hafa öðlast vottun. Kvenréttindafélagið telur þessa útfærslu of flókna í framkvæmd.

Tillaga Kvenréttindafélags Íslands:
Kvenréttindafélag Íslands leggur til að aðeins einn aðili, Jafnréttisstofa, fari með eftirlit með framkvæmd laganna. Rétturinn til að leggja á viðurlög, svo sem dagssektir, er enda þar.

Jafnréttisstofa

Kvenréttindafélagið  leggur áherslu á að það verkefni að innleiða jafnlaunastaðalinn hjá fyrirtækjum með 25 eða fleiri starfsmenn, er gríðarlega stórt og mikilvægt að vel takist til. Gert er ráð fyrir að bæta einu stöðugildi við hjá Jafnréttisstofu og hefur Kvenréttindafélagið efasemdir um að það sé nóg. Við ítrekum afstöðu okkar að tryggja þarf stöðu Jafnréttisstofu til framtíðar.

Teljum við nauðsynlegt að:

  1. að fjölga starfsmönnum Jafnréttisstofu til muna og bæta við sérfræðingum í þeim nýju málaflokkum sem henni er nú ætlað að sinna;
  2. að auka nálægð Jafnréttisstofu við stjórnsýslu ríkisins. Við teljum bráðnauðsynlegt að fjölga starfsmönnum Jafnréttisstofu sem staðsettir eru í Reykjavík til muna. Nauðsynlegt er fyrir stofnun sem sinnir svo mikilvægum málaflokki sem jafnréttismálum að vera í mikilli nálægð við þau ráðuneyti, stofnanir, frjáls félagasamtök og aðila vinnumarkaðarins sem staðsett eru á höfuðborgarsvæðinu;
  3. að tryggja það að starfsemi Jafnréttisstofu sé á landsvísu. Vinnueftirlitið er dæmi um stofnun hefur starfsmenn í níu sveitarfélögum á landinu. Teljum við að starf Jafnréttisstofu sé síst veigaminna en starf Vinnueftirlitsins og hvetjum við til þess að opnaðar verði skrifstofur Jafnréttisstofu í öllum landsfjórðungum og þar með tryggt að Jafnréttisstofa geti sinnt skyldum sínum við eftirlit, fræðslu og upplýsingastarfsemi á landinu öllu.

 

10. maí 2017
Hallveigarstöðum, Reykjavík