Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015 (mat á áhrifum stjórnarfrumvarpa). Þingskjal 144, 143. mál. 151. löggjafarþing.


26. nóvember 2020
Hallveigarstaðir, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands er fylgjandi þessu frumvarpi um breytingu á lögum um opinber fjármál, sem kveður á um að „hver ráðherra skal leggja mat á áhrif stjórnarfrumvarpa, þ.m.t. fjárhagsleg áhrif, loftslagsáhrif og áhrif á stöðu kynjanna, áður en þau eru lögð fyrir ríkisstjórn og Alþingi samkvæmt reglum um starfshætti ríkisstjórnar“.

Eins og kemur fram í greinargerð var þann 19. júní 2015 samþykkt innleiðingaráætlun kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar, þar sem fram kom að frá og með 2019 átti jafnréttismat að fylgja öllum frumvörpum „sem talin eru hafa miðlungs eða mikil áhrif á stöðu kynjanna“.  Þessum markmiðum hefur ekki verið náð.

Ein grundvallarforsenda þess að jafnrétti ríki hér á Íslandi er að þær ákvarðanir sem teknar eru af stjórnvöldum, þar á meðal Alþingi, séu ekki íþyngjandi eða ívilnandi einu kyninu.

Skemmst er að minnast þess að fyrr á þessu ári samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak til að bregðast við heimsfaraldri COVID-19 (699. mál, 150. löggjafarþing). Þetta átak var ekki sett í jafnréttismat, þrátt fyrir gagnrýni og hvatningu umsagnaraðila sem bentu á að átakið virtist aðallega beinast að störfum þar sem karlar voru í meirihluta (sjá t.d. umsögn félagsins Femínísk fjármál dagsett 29. mars 2020).

Þessi gagnrýni reyndist á rökum reist. Í fjárlögum 2021 kemur fram að „Miðað við kynjahlutfall starfandi í þeim atvinnugreinum sem fjárfestingarátakið tekur til má gera ráð fyrir að í kringum 85% þeirra starfa sem skapast á framkvæmdatímanum verði unnin af körlum og fjárfestingarátakið sem slíkt eykur því kynjamisrétti þegar eingöngu er horft til atvinnuskapandi áhrifa á framkvæmdatíma“ (Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021, bls. 119).

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að öll stjórnarfrumvörp verði metin með tilliti til áhrif þeirra á stöðu kynjanna. 

Kvenréttindafélag Íslands hvetur enn fremur til þess að Alþingi gangi lengra, að ef jafnréttismat ráðuneyta bendir til að frumvarp sé ívilnandi eða íþyngjandi einu kyninu umfram önnur, þá skuli Alþingi ekki taka frumvarpið til umræðu og afgreiðslu fyrr en að leyst hafi verið úr kynjahallanum, eða ráðherra hafi skilað inn rökstuðningi þess efnis að um sértæka aðgerð til að jafna stöðu kynjanna sé að ræða.

Aðrar fréttir