Kvenréttindafélag Íslands hefur sent inn eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum (skipt búseta barns), þingskjal 11, 11. mál, 151. löggjafarþing.


27. október 2020
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands lýsir yfir stuðningi við breytingu á þeim lögum sem tilgreind eru í frumvarpinu til þess að lögfesta ákvæði um heimild foreldra til þess að semja um skipta búsetu barns, að foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá barns án þess að búa saman geta einnig samið um skipta búsetu barns þannig að barnið eigi fasta búsetu hjá þeim báðum. Markmið laganna eins fram kemur í greinargerð er „að stuðla að jafnari stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barns og ákveða að ala það upp saman á tveimur heimilum“.

Kvenréttindafélag Íslands lítur svo á að um jafnréttismál sé að ræða, bæði fyrir börn og foreldra. Meginreglan í íslenskum rétti er sameiginleg forsjá, og í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að árið 2011 sömdu foreldrar um sameiginlega forsjá í 90% tilvika. Í greinargerðinni kemur einnig fram að „að umgengni hafi aukist og að börn dvelji í síauknum mæli til jafns hjá lögheimilis- og umgengnisforeldri“. Þrátt fyrir sameiginlega forsjá hefur t.d. réttur til barnabóta og réttur til að taka ýmsar ákvarðanir sem varða barn einskorðast við það foreldri sem barnið hefur lögheimili hjá. Telja verður að það sé gott einkenni á íslensku samfélagi að sameiginleg forsjá eftir skilnað sé meginregla og við styðjum samfélag þar sem komið er til móts þarfir sem skapast þegar börn eru búsett hjá báðum foreldrum með sem víðtækustum hætti.

Kvenréttindafélag Íslands tekur heilshugar undir þau sjónarmið sem koma fram í greinargerð frumvarpsins, að „þýðingarmikið sé að barn eigi góð og náin samskipti við báða foreldra sína og fjölskyldur þeirra beggja“. Jöfn þátttaka allra kynja í umsjón barna er einn lykillinn að áframhaldandi þróun í átt til kynjajafnréttis og öll lagasetning sem stuðlar að því auka jafnræði í umönnun barna, líkt og þetta frumvarp um skipta búsetu barns og frumvarp sem nú er unnið að í félagsmálaráðuneyti um jafnt fæðingarorlof (mál nr. 195/2020), eru mikilvæg í því efni.

Í þessu frumvarpi er lögð áhersla á að allir samningar um skipta búsetu skulu taka mið af því sem best hentar hag og þörfum barns og að mat á hagsmunum barns fari fram áður en staðfestur er samningur um skipta búsetu eða jafna umgengni. Sérstaklega fagnar Kvenréttindafélag Íslands því að í frumvarpinu er í fyrsta skipti lögfestur sá réttur að barn geti haft frumkvæði að því að sýslumaður boði foreldra til samtals til að ræða fyrirkomulag forsjár, lögheimilis, búsetu og umgengni (9. grein) og að í frumvarpinu sé skerptur réttur barna til að tjá sig við meðferð máls í samræmi við aldur og þroska (13. grein).

Kvenréttindafélag Íslands lýsir þó áhyggjum af því að þetta frumvarp kunni að skerða fjárhagslegan stuðning til kvenna. Eins og kemur fram í greinargerð, þá munu barnabætur hafa ólík áhrif á kynin „og er áætlað að halla muni á konur í því tilliti“, t.d. munu bætur til einstæðrar móður lækka þegar foreldrar semja um skipta búsetu barns, þar sem mæður í dag eru oftast lögheimilisforeldri. Einnig bendir greinargerðin á að það sé „líklegt að launamunur kynjanna hafi áhrif á skerðingu bótanna“.

Kvenréttindafélag Íslands tekur heilshugar undir orð greinargerðar þar sem fram kemur að mikilvægt sé að fylgjast vel með framkvæmd laganna og hvaða áhrif breytingarnar muni koma til með að hafa fyrir ólíka hópa og leggur til að í lögunum verði þetta eftirlit lögfest með því að fela einhverjum eftirlitsaðila það eftirlit, s.s. Jafnréttisstofu, og að reglugerð verði sett sem kveði á um reglubundna endurskoðun á barnabótum til að leiðrétta kynjahalla og tryggja framfærslustuðnings til þess foreldris sem á hallar.

Aðrar fréttir