Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um stjórnsýslu jafnréttismála. 151. löggjafarþing 2020–2021. Þingskjal 15,  15. mál.


29. október 2020
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands fagnar þessu frumvarpi um stjórnsýslu jafnréttismála sem nú liggur fyrir í Alþingi.

Kvenréttindafélag Íslands tók til umsagnar lög nr. 10/2008, jafnréttislög, í heild sinni að ósk stjórnvalda og sendi inn umsögn 28. febrúar 2018. Kvenréttindafélagið átti fulltrúa í fjórum starfshópum sem skipaðir voru haustið 2019 til að vinna að endurskoðun núgildandi jafnréttislaga. Hóparnir tóku ekki þátt í að móta þá lokagerð sem er til umsagnar hér.

Kvenréttindafélag Íslands er í megindráttum sammála þessu frumvarpi um stjórnsýslu jafnréttismála en hefur þó eftirfarandi athugasemdir.

Jafnréttisstofa

Jafnréttisstofa gegnir veigamiklu og lögbundnu hlutverki í íslenskri stjórnsýslu sem og íslensku samfélagi en stofnunin er fjársvelt og Kvenréttindafélag Íslands efast um að hún hafi burði til þess að sinna öllum þeim lögbundnu verkefnum sem henni er skylt að framkvæma. Það er skylda stjórnvalda að fjármagna Jafnréttisstofu að fullu svo að hún sé sterkur og öflugur eftirlitsaðili með jafnréttismálum innan stjórnsýslunnar og í samfélaginu öllu.

Umfang starfsemi Jafnréttisstofu hefur víkkað töluvert frá því að stofnunin var sett á laggirnar árið 2000, sérstaklega við gildistöku laga um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna nr. 85/2018 og laga um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018. Í skýrslunni Jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði sem lögfræðistofan Réttur gaf út í október 2019 benda skýrsluhöfundar á að þrátt fyrir að til hafi staðið að auka útgjaldaramma Jafnréttisstofu til að sinna þessum nýjum málaflokki, þá hafa fjárveitingar til stofnunarinnar ekki verið auknar. Jafnréttisstofa hafi ennfremur bent skýrsluhöfundum á að hvorki frumvarp það sem varð að lögum nr. 85/2018 né það sem varð að lögum nr. 86/2018 hafi verið kostnaðarmetið (Jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði, bls. 30).

Í frumvarpi sem nú liggur einnig fyrir Alþingi, frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna (þingskjal 14, 14. mál) er skyldum Jafnréttisstofu fjölgað á ný. Jafnréttisstofa á nú að sjá um framkvæmd jafnlaunastaðfestingar hjá fyrirtækjum þar sem 25–49 starfa að jafnaði á ársgrundvelli (8. gr., þingskjal 14, 14. mál) sem og eftirlit með jafnlaunavottun allra fyrirtækja og stofnana þar sem 25 eða fleiri starfa að jafnaði á ársgrundvelli (7 gr., þingskjal 14, 14. mál).

Í greinargerð sem fylgir því frumvarpi kemur fram að einu stöðugildi hafi verið bætt við Jafnréttisstofu til að sinna auknum skyldum hennar, en Kvenréttindafélag Íslands efast að það sé nægilegt. Einnig kemur fram í greinargerð að stöðugildi rúmist innan fjárhagsramma málaflokks jafnréttismála, sem félagið efast einnig um, en síðustu ár hefur Jafnréttisstofa þurft að leita sér utanaðkomandi fjármögnunar til að halda úti þeirri starfsemi sem hún nú þegar hefur.

Aðeins átta stöðugildi eru á nú skrifstofu Jafnréttisstofu í og ársskýrslu stofnunarinnar frá árinu 2018 kemur fram að aðeins 74% af tekjum hennar voru framlag ríkissjóðs, annars þurfti stofnunin að afla sértekna og verkefnastyrkja, jafnvel með því að sækja um fjármagn í samkeppnissjóði. Það er ótækt að ríkisstofnun skuli þurfa að eyða fjármagni og starfskrafti sínum í að afla tekna í erlenda samkeppnissjóð, til að geta unnið að lögbundnum verkefnum sínum.

Einnig er vert að minnast á að Jafnréttisstofa hefur ekki heimild í lögum til að setja sér gjaldskrá, og hvetur Kvenréttindafélag Íslands að það verði endurskoðað.

Í skýrslunni Jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði kemur fram að hagsmunahópar hafi bent á að lögin sem bannar mismunun óháð kynþætti og uppruna og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði beinist að minnihlutahópum sem eru í verri aðstöðu til þess að leita sér aðstoðar og að þörfin fyrir fræðslu og kynningu sé mikil þar sem umræddur hópur er í sérstaklega erfiðri stöðu (Jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði, bls. 30). Kvenréttindafélagið vill nota þetta tækifæri til að ítreka skoðun sína að nauðsynlegt sé að Jafnréttisstofa starfi á landsvísu til að tryggja það að fólk í öllum landshlutum geti auðveldlega leitað sér upplýsinga hjá stofnuninni.

Við minnum á að þann 10. mars 2016 skilaði nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismunar gagnvart konum tilmælum til íslenskra stjórnvalda þar sem hún hvatti íslensk stjórnvöld til að tryggja nægilegt fjármagn til Jafnréttisstofu til að gera henni kleyft að hafa eftirlit með lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (sjá: CEDAW: Concluding observations on the combined seventh and eight periodic reports of Iceland, 2016, mgr. 12b og mgr. 30c).

Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að skerpt sé á hlutverki og skipulagningu Jafnréttisstofu í frumvarpinu og að skýrt sé að Jafnréttisstofa hafi lagalega heimild til að sinna eftirlitsskyldu sinni til að kalla eftir gögnum og leggja dagsektir á aðila sem ekki skila gögnum þegar um er beðið. Þó er eftirtektarvert að hámark dagsektar er enn hið sama og í jafnréttislögunum sem sett voru fyrir tólf árum.

Í 6. grein er sérstaklega fjallað um heimild Jafnréttisstofu til að leggja á dagsektir til fyrirtækja og stofnana sem ekki hlýða fyrirmælum stofnunarinnar og er hámark dagsekta sett 50.000 kr. Þetta er sama upphæð og er í núgildandi jafnréttislögum, sbr. 4. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Hafa verður í huga að verðlag hefur breyst umtalsvert milli áranna 2008 og 2020. Hagstofa Íslands heldur úti verðlagsreiknivél, þar sem hægt er að reikna út hækkun á verðlagi milli ára. Skv. þeirri reiknivél eru 50.000 kr. í júlí 2008 sambærilegar við 78.538 kr. í september 2020. Hámark dagsekta í nýjum lögum um starfsemi Jafnréttisstofu ætti að endurspegla þessa hækkun.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur stjórnvöld til að stórefla fjármögnun til Jafnréttisstofu svo að hún geti sinnt öllum verkefnum sínum án utanaðkomandi fjármögnunar. Það þarf að fjölga starfsfólki Jafnréttisstofu, auka nálægð Jafnréttisstofu við stjórnsýslu ríkisins og tryggja það að starfsemi Jafnréttisstofu sé á landsvísu.

Kvenréttindafélag Íslands leggur til að Jafnréttisstofu sé gert heimilt að setja sér gjaldskrá.

Kvenréttindafélag Íslands leggur enn fremur til að hámark dagsekta sem Jafnréttisstofu er heimilt að setja verði hækkað úr 50.000 í 80.000 kr.

Kærunefnd jafnréttismála

Kvenréttindafélag Íslands fagnar breytingum á skipulagningu kærunefndar jafnréttismála, sérstaklega að í þessu frumvarpi sé það gert skýrt að félagasamtökum sé heimilt að leita atbeina kærunefndar jafnréttismála í eigin nafni telji þau að ákvæði löggjafar um jafnréttismál hafi verið brotin og að umtalsverður hluti félagsmanna sinna eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins, sem og þeirri breytingu að kærandi skal fá greiddan málskostnað úr ríkissjóði fyrir héraðsdómi, Landsrétti og fyrir Hæstarétti, ef gagnaðili vill ekki una úrskurði kærnefndar og höfðar mál til ógildingar fyrir dómstólum.

Í frumvarpinu eins og það liggur fyrir í dag er kveðið á um að þrír fulltrúar skipi kærunefnd jafnréttismála (7. gr.), þar af einn með sérþekkingu á jafnrétti kynjanna og einn á jafnrétti í víðtækari merkingu. Telur Kvenréttindafélagið sjálfsagt að allir þrír fulltrúar í kærunefnd jafnréttismála sem og allir þrír varafulltrúar skulu búa yfir sérþekkingu á jafnréttismálum.

Í frumvarpinu kemur fram að úrskurðir kærunefndar séu bindandi gagnvart málsaðilum en málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla (8. gr.). Telur Kvenréttindafélag Íslands að úrskurður kærunefndar jafnréttismála skuli vera lokaniðurstaða í ráðningum hins opinbera, en að einkaaðilar ættu að hafa heimild til að áfrýja úrskurði nefndarinnar.

Í frumvarpinu er kveðið á um aðild að málum fyrir kærunefnd jafnréttismála (9. gr.). Þar er nefnt að félög geti í eigin nafni rekið mál fyrir nefndinni. Kærunefnd jafnréttismála hefur túlkað þetta ákvæði afar þröngt, og telur að félög þurfi að reka mál fyrir hönd einstaklinga sem eigi lögvarða hagsmuni (Sjá t.d. Kærunefnd jafnréttismála, mál nr. 12/2017). Telur Kvenréttindafélagið að tryggja þurfi félagasamtökum aðild að málum fyrir kærunefnd jafnréttismála.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að kveðið sé á um að allir fulltrúar í kærunefnd jafnréttismála, þar af a.m.k. einn sérþekkingu á jafnrétti kynjanna og þar af a.m.k einn af jafnrétti í víðtækari merkingu.

Telur Kvenréttindafélag Íslands leggur til að úrskurður kærunefndar jafnréttismála skuli vera lokaniðurstaða í ráðningum hins opinbera, en að einkaaðilar ættu að hafa heimild til að áfrýja úrskurði nefndarinnar.

Kvenréttindafélag Íslands telur að tryggja þurfi félagasamtökum aðild að málum fyrir kærunefnd jafnréttismála.