Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um tillögu til þingsályktunar um hraðari málsmeðferð og bætta réttarstöðu þolenda heimilisofbeldis við hjúskaparslit. Þingskjal 175, 173. mál, 152. löggjafarþing

Hallveigarstaðir, Reykjavík
8. febrúar 2022

Kvenréttindafélag Íslands fagnar þessari tillögu til þingsályktunar sem felur innanríkisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra að taka til endurskoðunar ýmis lög og reglugerðir, þar á meðal hjúskaparlög nr. 31/1993, með það að markmiði að stuðla að hraðari málsmeðferð við hjónaskilnaði, ekki síst til að bæta stöðu þolenda heimilisofbeldis. Einnig felur tillagan í sér að ákvæði reglugerðar um skilyrði gjafsóknar verði rýmkaðar þegar í stað svo að meðferð skilnaðarmála, fjárskipta eða forsjármála verði þolendum heimilisofbeldis ekki jafn íþyngjandi og hún er nú og að gerð verði greining á því hver er mannafla- og fjármagnsþörf sýslumannsembætta til að tryggja í senn vandaða og skilvirka málsmeðferð skilnaðarmála og því sem þeim tengist.

Ofbeldi gegn konum er gríðarlega stórt vandamál í íslensku samfélagi. 40% kvenna á Íslandi hafa orðið fyrir ofbeldi einhvern tímann á ævinni sinni samkvæmt tölum úr rannsókn Háskóla Íslands Áfallasaga kvenna, og í rannsókn sem unnin var af Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd fyrir félags- og tryggingarmálaráðuneytið árið 2010, sögðust rúmlega 22% kvenna á Íslandi hafa verið beittar ofbeldi í nánu sambandi einhvern tíma frá 16 ára aldri.

Kvenréttindafélag Íslands styður allar réttarbætur sem aðstoða konur að flýja ofbeldi. Félagið hvetur Alþingi til að styðja þessa tillögu til þingsályktunar.