Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (kynferðisleg friðhelgi). Þingskjal 296,  267. mál, 151. löggjafarþing.


2. desember 2020
Hallveigarstaðir, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands fagnar nýju frumvarpi til laga um kynferðislega friðhelgi og hvetur Alþingi til að veita því framgang.

Stafrænt kynferðisofbeldi er birtingarmynd ofbeldis þar sem efni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklings án samþykkis hans er sett í dreifingu á netinu og með öðrum leiðum. Stafrænt kynferðisofbeldi er sífellt algengara hér á landi. Þolendur þess eiga fá ráð til að bregðast við birtingu þess, sérstaklega þar sem erfitt er að eyða efni sem einu sinni er komið á netið.

Kvenréttindafélag Íslands hefur síðustu árin lagt sitt af mörkunum til að stuðla að vitundarvakningu um stafrænt kynferðisofbeldi og afleiðingar þess, bæði beinar afleiðingar fyrir þolendur, svo sem sálrænar, fjárhagslegar og líkamlegar, en einnig samfélagslegar afleiðingar. Að mati félagsins er stafrænt kynferðisofbeldi bein ógn við lýðræðið þar sem myndbirtingar af viðkvæmu efni án samþykkis einstaklinga stuðla að þöggun og geta hindrað þá í því að taka fullan þátt í samfélagslegri umræðu.

Skilningur samfélagsins á stafrænu kynferðisofbeldi hefur gjörbreyst á aðeins örfáum árum í kjölfar mikillar umræðu og hugrekkis þolenda sem hafa komið fram opinberlega til að greina frá reynslu sinni. Þetta er í fjórða skipti sem frumvarp liggur fyrir Alþingi til að banna stafrænt kynferðisofbeldi og ber þetta frumvarp merki þess hve mikið skilningur okkar á eðli þessa glæps hefur aukist. Þó hefur refsilöggjöfin ekki verið uppfærð til að taka á stafrænu kynferðisofbeldi og dómaframkvæmd hefur að sama skapi verið óstöðug, eins og kemur fram í greinargerð. Það er því löngu kominn tími til að uppfæra hegningarlögin og setja skýrt inn ákvæði sem áréttar kynferðislega friðhelgi og bannar stafrænt kynferðisofbeldi.

Kvenréttindafélag Íslands er sammála þessu frumvarpi í grófum dráttum. Félagið fagnar því að stafrænt kynferðisofbeldi sé sett í XXII. kafla almennra hegningarlaga um kynferðisbrot sem tryggir það að slík brot muni ávallt sæta rannsókn þegar grunur er um brot og ákæru þegar sönnunargögn teljast nægileg. 

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að samhliða þessum lögum verði farið í endurskoðun á verklagi og þjálfun hjá lögreglu til þess að tryggja að þau hafi bæði úrræði og aðföng til þess að rannsaka málin.

Brotaþolar stafræns ofbeldis á Íslandi treysta ekki réttarvörslukerfinu til að vinna úr þessum málum. Í skýrslunni Online Violence Against Women in the Nordic Countries sem Ásta Jóhannsdóttir, Mari Helenedatter Aarbakke og Randi Theil Nielsen unnu fyrir Kvenréttindafélagið voru birtar niðurstöður samnorrænnar rannsóknar á birtingarmyndum stafræns ofbeldis á Íslandi, í Danmörku og Noregi og hvernig þolendur upplifa leitina að réttlæti vegna þessa ofbeldis. Hér á Íslandi kom í ljós að meirihluti þeirra kvenna sem hafði orðið fyrir stafrænu ofbeldi og haft var samband við hafði ekki leitað réttlætis, því þær vantreystu réttarvörslukerfinu og töldu því ástæðulaust að tilkynna ofbeldið til lögreglu eða kæra (Online Violence Against Women in the Nordic Countries, 2017, bls. 13).

Í skýrslunni Kynferðisleg friðhelgi: umfjöllun um réttarvernd og ábendingar til úrvinnslu sem María Rún Bjarnadóttir vann fyrir forsætisráðuneytið og kom út 2020 er áréttað mikilvægi þess að treysta og efla réttarvörslukerfið til að geta rannsakað stafræn ofbeldismál. Í skýrslunni er sérstaklega bent á mikilvægi þess að rannsakendur, ákærendur og dómarar hafi að ráða yfir þekkingu og færni til að takast á við mál sem snúast um stafrænt kynferðisofbeldi (bls. 129130) og að réttarvörslukerfið setji sér skýrt verklag hvernig tekið sé á þessum málum (bls 131). Einnig bendir skýrslan á að til að tryggja viðunandi meðferð mála innan réttarvörslukerfisins þurfa að koma til fullnægjandi aðföng; fjármagn, starfsfólk, búnaður og aðstaða sem tekur mið af þeim stafrænu áskorunum sem geta falist í meðferð mála er varða stafræn kynferðisbrot (bls. 132). 

Til þess að endurreisa traust þolenda á lögreglunni og tryggja það að stafrænt kynferðisofbeldi sé rannsakað á fullnægjandi máta þarf Alþingi að beita sér fyrir því að réttarvörslukerfið fái stuðning til að ráðast í endurmenntun starfsfólks, endurskoðun verklags og fullnægjandi aðföng til að geta rannsakað málin. Kvenréttindafélag Íslands tekur undir með skýrsluhöfundi Maríu Rún Bjarnadóttur að skortur á eftirfylgni með framkvæmd laga getur grafið undir gildi lagasetningar (Kynferðisleg friðhelgi: umfjöllun um réttarvernd og ábendingar til úrvinnslu, 2020, bls. 130). Mikilvægt er að þessi mikla réttarbót, að banna stafrænt kynferðisofbeldi, verði ekki dauður lagabókstafur.

Kvenréttindafélag Íslands bendir á að nauðsynlegt er að efla ákvæði almennra hegningarlaga um barnaníð samhliða þessu frumvarpi. Ungt fólk, og þá sérstaklega ungar konur, eru líklegri til að verða fyrir stafrænu ofbeldi heldur en fullorðið fólk. 

Í ár kom út skýrsla alþjóðlegu samtakanna Plan International sem byggð var á viðtölum við 14.000 stúlkur og konur á aldrinum 15 til 25 ára og gagnaöflun í 22 löndum. 58% stúlknanna greindu frá því að þær höfðu verið áreittar á netinu, m.a. með myndbirtingum af þeim á netinu, og sögðu 50% viðmælenda að þær yrðu fyrir meiri áreitni á netinu heldur en á götunni. Áreitnin hófst í sumum tilvikum þegar stúlkurnar voru 8 ára gamlar, en algengast var að það hæfist á aldrinum 14 til 16 ára (Free to Be Online? Girls’ and young women’s experience of online harassment. Plan International, 2020). 

Á þessu ári var einnig birt skýrsla bresku samtakanna Refuge sem byggð var á könnun með fullorðinna einstaklinga í Englandi og Wales þar sem umfang kynferðislegrar myndbirtingar án samþykkis var rannsakað. Rannsóknin sýndi að 1 af hverjum 14 fullorðnum einstaklingum í Englandi og Wales hefur orðið fyrir hótunum að myndefni af þeim væri komið í dreifingu. Einnig kom í ljós kom að konur á aldrinum 18 til 34 ára voru tvisvar sinnum líklegri en fólk af öðrum kynjum og á öðrum aldri að verða fyrir þvílíkum hótunum (The Naked Threat. Refuge, 2020).

Kvenréttindafélag Íslands hvetur Alþingi til að veita þessu frumvarpi um kynferðislega friðhelgi framgang.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur Alþingi til að tryggja réttarvörslukerfinu úrræði og aðföng til að rannsaka stafrænt kynferðisofbeldi, til þjálfa rannsakendur, ákærendur og dómara og til að endurskoða verklag við rannsókn málanna.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur Alþingi til að uppfæra ákvæði almennra hegningarlaga um barnaníð til að taka á gerð, dreifingu og birtingu á efni af eða um nekt eða kynferðislega háttsemi.