Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um tillögu til þingsályktunar um Alþingi sem fjölskylduvænan vinnustað, þingskjal 379, 334. mál, 150. löggjafarþing.


Kvenréttindafélag Íslands lýsir yfir eindregnum stuðningi við tillögu til þingsályktunar að fela forseta Alþingis að skipa þverpólitískan starfshóp um Alþingi sem fjölskylduvænan vinnustað.

Nauðsynlegt er að tryggja þátttöku allra kynja í stjórnmálum, og að starf lýðræðislegra kjörinna fulltrúa fari fram á tímum sem henti öllum. 

Í skýrslu sem unnin var um jafnrétti í sænska löggjafarþinginu kom fram að mikilvægir fundir og viðburðir voru oft haldnir að kvöldi til og var þetta íþyngjandi sérstaklega ungu fólki á þingi sem líklegra var til að eiga ung börn. Benti rannsóknin til þess að konur á sænska þinginu ættu erfiðara en karlar að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf (Josefina Eriksson og Cecilia Josefsson. Jämställdheten i riksdagen: en enkätstudie. Statsvetenskapliga institutionen, Uppsala Universitet, 2016).

Árið 2017 gaf bandaríska rannsóknarstofnunin Center for American Progress út skýrslu um stöðu kvenna í bandarískum stjórnmálum, þar sem sérstaklega var mælt með að löggjafarþing bættu starfsumhverfi til að auðvelda þingfólki með ung börn og þingfólki sem búa langt frá vinnustað tækifæri að taka fullan þátt í starfi þingsins. Þar á meðal með því að breyta vinnuskipulagi og fækka morgun- og kvöldfundum, sem og leyfa þingfólki að taka þátt í þingstarfi á rafrænan máta þegar viðeigandi er (Opening the Gates: Clearing the Way for More Women to Hold Political Office, Center for American Progress, 2017).

Eins og kemur fram í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu hefur Alþingi sett sér metnaðarfulla jafnréttisáætlun þar sem sérstakan kafla um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs er að finna, en þessi jafnréttisáætlunin nær þó einungis til starfsmanna þingsins en ekki kjörinna fulltrúa. Telur Kvenréttindafélag Íslands ótækt að jafnréttisáætlun Alþingis nái aðeins til hluta starfsfólks á Alþingi. 

Starfstími kjörinna fulltrúa á Alþingi stýrir að miklu leyti starfstíma almenns starfsfólks á vinnustað, og því er ekki hægt að tryggja samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs á Alþingi og gera Alþingi eftirsóknaverðan vinnustað fyrir allt fólk án þess að líta til vinnufyrirkomulags kjörinna fulltrúa. 

Gerum Alþingi fjölskylduvænt fyrir alla á Alþingi, starfsfólk og kjörna fulltrúa!

Aðrar fréttir