Umsögn um tillögu til þingsályktunar um kynjavakt Alþingis

Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um um tillögu til þingsályktunar um kynjavakt Alþingis. Þingskjal 48, 48. mál, 149. löggjafarþing 2018–2019.

11. janúar 2019
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands styður heilshugar þessa tillögu til þingsályktunar til að koma á fót kynjavakt Alþingis.

Kynjavaktinni er ætlað að gera úttekt á því hvort og hvernig kyn hefur áhrif á aðkomu að ákvarðanatöku innan Alþingis, hvernig ályktunum Alþingis og aðgerðaáætlunum ríkisstjórna í jafnréttismálum hefur verið framfylgt og skoði næmi Alþingis fyrir ólíkri stöðu kynjanna samkvæmt kynnæmum vísum Alþjóðaþingmannasambandsins. Sérstaklega er kveðið á um að kynjavaktin skuli kanna vinnustaðamenning Alþingis með tilliti til samskipta kynjanna.

Fimm af átta fastanefndum Alþingis standast nú ekki jafnréttislög sem kveða á um að í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% af hvoru kyni. Í menntamálanefnd og í fjárlaganefnd eru skipaðir 7 karlar og 2 konur (kynjahlutfall 78/22) og í efnahags- og viðskiptanefnd, í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í velferðarnefnd eru skipaðir 6 karlar og 3 konur (kynjahlutfall 67/33).

Í kjölfar frásagna sem deilt hefur verið á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #MeToo er nauðsynlegt að vinnustaðir allir, þar á meðal Alþingi, beiti stórhuga aðgerðum til að tryggja jafnrétti og öryggi starfsfólks. Kvenréttindafélag Íslands telur þessa kynjavakt vera heillaskref hjá Alþingi til að tryggja jafnrétti í starfsemi sinni og lagasetningu og vera fyrirmyndarskref fyrir samfélagið allt.

Kynjajafnrétti er grundvöllur hagsældar og velferðar og án valdeflingar og þátttöku kvenna á opinberum vettvangi er ekki hægt að uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna um frið, jafnrétti og lýðræði.