Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál. Þingskjal 20, 20. mál, 152. löggjafarþing:

Hallveigarstaðir, Reykjavík
8. febrúar 2022

Kvenréttindafélag Íslands hvetur Alþingi til að samþykkja tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál.

Í tillögunni er innanríkisráðherra falið að setja á fót starfshóp til að móta tillögur um bætt verklag um miðlun um heimilisofbeldismál á milli kerfa félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta, þ.á.m. tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli stofnana.

Heimilisofbeldi er rótgróinn vandi í íslensku samfélagi og við þurfum samstillt átak allra aðila til að uppræta þessa plágu. Góð samskipti milli þeirra stofnana og aðila sem vinna að málaflokknum er grundvöllur þess að við getum náð góðum árangri. 

Kvenréttindafélag Íslands hefur tvisvar áður sent inn samhljóðandi umsögn um samhljóðandi þingsályktunartillögu, á 150. og 151. löggjafarþingi, en tillagan hefur ekki enn hlotið framgang. Kvenréttindafélag Íslands hvetur 152. löggjafarþing íslensku þjóðarinnar eindregið til að samþykkja þessa tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál.

Aðrar fréttir