Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um samvinnufélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um hlutafélög og lögum um sameignarfélög (viðurlög vegna hlutfalls kynja í stjórn). Þingskjal 56, 56. mál, 151. löggjafarþing.


5. nóvember 2020
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands fagnar því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi sem gefur heimild til að leggja dagsektir á þau samvinnufélög, einkahlutafélög, hlutafélög og sameignarfélög sem ekki hafa uppfyllt lagalega skyldu sína að tryggja að hlutfall kvenna eða karla sé ekki lægra en 40% í stjórnum sínum.

Í ár eru tíu ár síðan að fyrstu lög voru sett á Íslandi til að tryggja það að hlutfall hvors kyns í stjórnum fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn skuli vera yfir 40%. Þrátt fyrir rúman aðlögunartíma hefur aukning kvenna í stjórnum fyrirtækja gengið hægt, sérstaklega þegar litið er til minni fyrirtækja. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni voru árið 2018 konur 28,8% stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50–99 starfsmenn, 36,4% í stjórnum fyrirtækja með 100–249 starfsmenn og 39,4% í fyrirtækjum með 250 eða fleiri starfsmenn. Í öllum tilvikum er þar um að ræða kynjahlutfall sem er óásættanlegt og ólöglegt!

Í lögum um samvinnufélög nr. 22/1991, einkahlutafélög nr. 138/1994, hlutafélög nr. 2/1995 og sameignarfélög nr. 50/2007 er ekki gert ráð fyrir sektarheimildum til að beita gegn fyrirtækjum sem brjóta þessi lög, ólíkt því sem er að finna í jafnréttislögum nr. 10/2008, en þar er heimilt að beita dagsektum á fyrirtæki sem t.d. ekki skila inn jafnréttisáætlunum. Telur Kvenréttindafélagið mjög til bóta að ákvæði um sektarheimildum sé bætt inn í viðeigandi lög, til að tryggja samræmi og til að hvetja fyrirtæki að hlíta lögum.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að samhljóðandi ákvæði um sektarheimildir sé einnig bætt inn í lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, en í 29. gr. er þar kveðið á að hvort kyn skuli eiga fulltrúa í stjórn þegar hún er skipuð þremur mönnum og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír í lífeyrissjóði skal tryggt að hlutfall hvors kynsins sé ekki lægra en 40%.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að lög um samvinnufélög, einkahlutafélög, hlutafélög og sameignarfélög verði uppfærð svo að ákvæði um kynjahlutföll í stjórn taki til allra fyrirtækja með 25 eða fleiri starfsmenn, ekki fleiri en 50 starfsmenn eins og stendur núna, en það er sama viðmið og er notað í jafnréttislögum nr. 10/2008. Þá hvetur Kvenréttindafélagið enn fremur til þess að skerpt verði á skilgreiningum um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja svo þau taki einnig til stjórna þar sem aðeins eru 3 stjórnarmenn, með því að bæta við ákvæði um gætt skuli að hlutfall kvenna og karla sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur svo eindregið að endurskoðun á orðalagi sé gerð á þessum lögum sem frumvarpið tekur á, því að samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 getur fólk óskað eftir hlutlausri skráningu á kyni sínu og fellur því hvorki undir skilgreininguna kona eða karl. Nauðsynlegt er að tryggja það að ákvæði um kynjahlutföll í stjórnum taki einnig til fólks með kynhlutlausa skráningu, sem og að tryggja það að hlutfall kvenna fari aldrei niður fyrir 40%.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um ný jafnréttislög þar samsvarandi ákvæði um kynjahlutföll í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera hefur verið breytt til að taka tillit kynhlutlausrar skráningar (28. grein frumvarps til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Þingskjal 14, 14. mál, 151. löggjafarþing). Í því ákvæði er gert ráð fyrir að hlutfall kvenna og karla sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa sé að ræða. Það ákvæði kemur ekki í veg fyrir tilnefningu og skipun fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá í nefndir, ráð og stjórnir á vegum hins opinbera, en skýrt er tekið fram að: „Hlutfall kvenna skal þó aldrei vera minna en 40%.“

Það er þjóðarhagur að kynjahlutföll séu jöfn í stjórnum fyrirtækja og stofnana hér á landi. Kvenréttindafélag Íslands vill minna á að 40/60 hlutfall milli kvenna og karla í stjórnum fyrirtækja ætti ekki að vera lokatakmark, heldur lágmarkskrafa í rekstri fyrirtækja. Jafnrétti er 50/50!