Petrína Ásgeirsdóttir sótti ráðstefnu um kvenréttindi í Istanbúl í maí 2014, sem fulltrúi Kvenréttindafélags Íslands. Hún flutti fréttir frá ráðstefnunni á aðalfundi félagsins 10. október 2014. 

istanbulsummit

Ég sótti ráðstefnu í Istanbul í lok maí á vegum the Journalists and Writers Foundation í Tyrklandi um Sjónarhorn kvenna á þróunarmarkmið SÞ eftir árið 2015 (Women’s Perspective on UN Post-2015 Development Agenda).
Langt er í land að þúsaldarmarkmið SÞ náist árið 2015 og ef heldur fram sem horfir munu markmiðin fyrst nást eftir 110 ár að mati SÞ. Verið er að vinna að nýjum þróunarmarkmiðum eftir 2015, og var ráðstefnan skipulögð til að hafa áhrif á þá vinnu.

Vil hér benda á vefsíðurnar www.worldwewant2015.org og www.myworld2015.org ef KRFÍ eða einstakir félagsmenn hafa áhuga á að fá nánari upplýsingar um gerð nýrra þróunarmarkmiða eða að kjósa um helstu markmiðin.
Ráðstefnuna sóttu um 300 konur frá um 45 löndum. Fyrirlesarar voru víða að. Nánari upplýsingar á www.istanbulsummit.org.

Á ráðstefnunni var rætt um félagslega, efnahagslega og umhverfislega þætti og um mikilvægi málsvarastarfs frjálsra félagasamtaka. Ég vil hér nefna nokkur atriði sem vöktu athygli mína.

Mikilvægi valdeflingar kvenna og stúlkna var rauði þráðurinn í umræðum.

Skilaboðin um jafnrétti voru skýr: „Við höfum enga þolinmæði þegar kemur að kynjamisrétti“. „Konur eru ekki minnihlutahópur heldur helmingur mannkyns“. „Sömu tækifæri fyrir stúlkur og drengi“. „Aðgerða er þörf, orðin ein duga ekki“.

Rætt var um kynfræðslu og kynheilbrigði ungra stúlkna og að bæta þyrfi aðgang þeirra að heilbrigðisþjónustu. Í sumum samfélögum er litið svo á að hlutverk kvenna sé að gifta sig og eignast börn. Þar er það almenn trú að stúlkur þurfi ekki á kynfræðslu að halda. Sumir foreldrar líta svo á að hjónaband veiti stúlkum öryggi og þannig eru um 14 milljónir stúlkna undir 18 ára aldri í hættu á að vera gefnar í hjónabönd og að eignast börn ungar.

Til umræðu kom staða og réttindi kvenna í múslimaríkjum. Í Eygyptalandi eru t.d. réttindi kvenna sett fram sem andstæða við þjóðrækni og föðurlandsást, sem gerir konum erfiðara fyrir að berjast fyrir réttindum sínum. Konur sem eru múslimar eru oft í erfiðri stöðu því þær þurfa að sýna fram á að það er ekki trúin sem kúgar heldur samfélagið.

Rætt var að þróunarmarkmið verði að taka mið af aðstæðum á hverjum stað og vinnast samkvæmt því. Dr. Smita Tevari Jassal fyrirlesari frá Indlandi, tók dæmi um mismunandi áskoranir kvenna í Indlandi og í Svíþjóð. Hún sagði að í Svíþjóð væri erfitt að ræða misrétti kynjanna opinberlega, umræðan væri orðin kynhlutlaus og kynblind, meðan konur í Indlandi gætu rætt opinskátt um það misrétti sem þær verða fyrir á degi hverjum. Mér fannst einnig athyglisvert að hún talaði um að atvinnufrelsi karla og fyrirvinnuhlutverk þeirra héldi í raun konum niðri og kæmi í veg fyrir að þær gætu orðið efnahagslega sjálfstæðar. Hún nefndi sem dæmi að víða í Indlandi fara karlar burt til að vinna og konur hafa þá ekki annað val en að sinna heimilinu.

Útrýming fátæktar var til umræðu og fannst mér mjög athyglisverður fyrirlestur Dr. Thomas Kesselring (frá Sviss). Bil á milli fátækra og ríkra landa hefur aukist verulega á undanförnum árum. Árið 1950 var það 35:1, árið 1992 72:1 og árið 2014 658:1. Bil á milli ríkra og fátækra innan landa hefur einnig aukist. Og sláandi er að eignir 85 ríkustu einstaklinga í heimi jafngilda eignum fátækari helmingi jarðarbúa (um 3,5 milljaður manns). Dr. Thomas talaði um að til að útrýma fátækt þyrfti beina og óbeina stefnu. Bein stefna væri m.a. valdefling og menntun kvenna og karla og SÞ nota þessa aðferð. En óbein stefna væri að fjarlægja hindranir sem koma í veg fyrir að fátækir geti bætt lífskjör sín. Því þarf að skoða hvaða hindranir það eru og hvað veldur því að bil milli fátækra og ríkra eykst stöðugt. Hann nefndi nokkra þætti sem hafa áhrif m.a. mikil völd alþjóðlegra stórfyrirtækja, mikil áhersla á frjálsan markað þar sem óheftur gróði og mannréttindi fara ekki saman og hlutabréfamarkað sem væri orðin miðja efnahagsins. Á árunum 1983 til 2001 jókst magn hlutabréfa í umferð 56 falt. Aðeins 2% fór þó inn í efnahaginn, 98% var bólumyndun.

Vatnsöryggi og mataröryggi var til umræðu og áhersla lögð á sjálfbærni í vatnsnýtingu og matarframleiðslu. Það eru mannréttindi að eiga óheftan aðgang að hreinu vatni og því er einkavæðing vatns brot á mannréttindum. Einkavæðing á vatni er hins vegar veruleiki sem hefur mikil áhrif á lífs kjör fólks. Fram kom í einum fyrirlestri að gróði fyrirtækisins Nestlé vegna einkavæðingar vatns séu 2 milljarðar USD á ári. www.gwp.org.

Defne Koryür fyrirlesari frá Slow Food samtökunum í Tyrklandi benti á ósjálfbærni í matarframleiðslu þar sem ekki er horfst í augu við raunverulegan kostnað við framleiðslu og benti hún t.d. á að bændur í Tyrklandi fá víða aðeins greiddan rúmlegan helming af kostnaði við framleiðslu á matvörum. Sagði hún að hin mikla áhersla á að matur væri ódýr kæmi niður á gæðum vörunnar og á lífskjörum framleiðenda.

Loftslagsbreytingar og gróðurhúsáhrif voru til umræðu og lagt til að minnkun gróðurhúsaáhrifa verði eitt af nýju þróunarmarkmiðum og að samtök kvenna um allan heim vinni að því markmiði. Mér fannst athyglisvert að stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa sett fram fimm ára áætlun til að draga úr gróðurhúsáhrifum og vinna samtök þar í landi með almennum borgurum að því að minnka orkunotkun þeirra. www.climatechangecenter.kr/ccc/intro/intro5.jsp

Ég vil hér enda með að segja stuttlega frá málstofu sem ég tók þátt í um valdeflingu kvenna. Mér fannst ég hafa miklu að miðla um árangur kvenna á Íslandi og það vakti athygli að við ættum konu fyrir biskup, það fannst mörgum ótrúlegt.

Sú sem stýrði málstofunni var Julia Marpu Duncan-Cassell ráðherra í Líberíu og það vakti athygli viðstaddra þegar við bárum saman bækur okkar, að fyrsti kvenkyns forseti í heimi frú Vigdís Finnbogadóttir var kjörin á Íslandi 5 árum eftir kvennaverkfallið árið 1975 og fyrsti kvenforseti í Afríku, frú Ellen Johnson Sirleaf í Liberíu var kosin um 6 árum eftir að konur í landinu fóru í verkfall á heimilum sínum. Skilaboð mín til hópsins voru því að verkföll skiluðu árangri bæði í norðri og suðri og að við gætum lært margt hver af annarri óháð búsetu.

Petrína Ásgeirsdóttir

Aðrar fréttir