Aðalfundur KRFÍ, 18. mars 2009 ályktar:
Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands fagnar því að samþykkt hefur verið á Alþingi aðgerðaráætlun gegn mansali. Það var löngu tímabært enda hefur mansal fengið að þrífast hér á landi líkt og í nágrannalöndum okkar.
Þá fagnar aðalfundurinn af heilum hug framkomnu þingmannafrumvarps á Alþingi um að kaup á vændi verði refsivert athæfi. KRFÍ hefur ásamt öðrum kvennasamtökum lengi bent á nauðsyn þess að kynlífskaupandi sæti ábyrgð, svo sporna megi við því kynbundna ofbeldi sem vændi felur í sér.
Stjórn KRFÍ hefur fjallað um nýlegar skipanir stjórnvalda í veigamiklar nefndir s.s. skilanefndir á vegum ríkisins og bankaráð. Ljóst er að verulega hefur hallað á konur í þeim skipunum. Á aðalfundi var ályktað að það sé með öllu óviðunandi að stjórnvöld fari þannig á svig við gildandi lög og reglur um jafnrétti kynjanna. Vill fundurinn af þessu gefna tilefni minna ríkisstjórn landsins á að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast, skv. 15. gr. Jafnréttislaganna.
Þá hvetur fundur eindregið til þess að alþingismenn veiti framkominni þingsályktunartillögu um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnarkosningum brautargengi. Nú styttist í sveitarstjórnarkosningar og sú staðreynd að Alþingiskosningar standa fyrir dyrum, gerir þörfina fyrir þær aðgerðir sem tillagan fjallar um ekki minni.