Í Póllandi og Tyrklandi vinna stjórnvöld nú að því að rifta samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi, Istanbúlsamningnum svokallaða.
Istanbúlsamningurinn sem undirritaður var af ríkjum Evrópu árið 2011 er fyrsti bindandi alþjóðasáttmálinn sem tekur heildstætt á baráttunni um ofbeldi gegn konum. Samningurinn bindur þjóðríki til að tryggja réttindi brotaþola, bæta þjónustu og sinna forvörnum. 45 þjóðríki og Evrópusambandið hafa skrifað undir samninginn og hafa 34 ríki fullgilt hann, þar á meðal Ísland.
Þau skref sem nú eru tekin af stjórnvöldum Póllands og Tyrklands til að rifta þessum samningi eru skelfileg og gríðarleg afturför í baráttunni við að tryggja jafnrétti kynjanna. Þetta er ekki aðeins aðför að konum heldur einnig að hinsegin fólki, minnihlutahópum og viðkvæmum hópum. Vonbrigðin eru mikil að Pólland og Tyrkland, tvö ríki sem voru meðal þeirra fyrstu til að fullgilda Istanbúlsamninginn, ætli nú að segja sig frá honum. Með því er ekki einungis verið að halda aftur af og koma í veg fyrir aukið jafnrétti í þessum löndum, heldur Evrópu allri þar sem ákvörðunin setur hættulegt fordæmi fyrir önnur ríki þar sem mannréttindi og lýðræði standa höllum fæti.
Kvenréttindafélag Íslands er aðili að European Women’s Lobby (EWL), regnhlífasamtökum femínískra samtaka innan Evrópu. Í yfirlýsingu frá samtökunum um áætlanir pólskra stjórnvalda bendir forseti EWL, Gwendoline Lefebvre, á að Istanbúlsamningurinn sé víðtækasta verkfæri sem stjórnvöld innan Evrópu hafa til að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum. „Við í EWL getum ekki samþykkt það að ríki innan Evrópusambandsins ákveði að segja sig frá lögbundnum skyldum sínum að vernda réttindi kvenna“. Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélag Íslands, segir: „Árás á kvenréttindi í einu landi er árás á kvenréttindi alls staðar. Þau hafa ekki verið auðfengin og við verðum að standa vörð um þau“.
Kvenréttindafélag Íslands stendur með systursamtökum sínum í Póllandi og Tyrklandi, NEWW-Polska og Avrupa Kadin Lobisi Turkiye Koordinasyonu, sem eru í framlínunni við að tryggja öryggi kvenna og jafnrétti kynjanna þar. Kvenréttindafélag Íslands lýsir yfir stuðningi við allar þær konur, fólk og femíníska hópa í Póllandi og Tyrklandi sem í áratugi hafa unnið sleitulaust að því að skapa samfélag sem byggist á jafnrétti kynjanna.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur stjórnvöld í Póllandi og Tyrklandi að staðfesta skuldbindingar sínar vegna Istanbúlsamningsins og tryggja öryggi kvenna og jafnrétti kynjanna innan landamæra sinna.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur íslensk stjórnvöld til að leggja sitt að mörkum að öll ríki Evrópu heiðri og uppfylli samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi og fordæmi fyrirætlan Póllands og Tyrklands í þessu samhengi.