Eftirfarandi ályktun var formlega afhent Ólöfu Nordal innanríkisráðherra, í Innanríkisráðuneytinu Sölvhólsgötu 7, kl. 12 miðvikudaginn 25. febrúar.

Að ályktuninni standa: Femínistafélag Íslands, Kvennaathvarfið, Kvennaráðgjöfin, Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Stígamót og W.O.M.E.N. Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi.

***

Una Hildardóttir, ráðskona í Femínistafélagi Íslands, Anna Katarzyna Wozniczka formaður W.O.M.E.N. in Iceland - Samtaka kvenna af erlendum uppruna, og Fríða Rós Valdimarsdóttir varaformaður Kvenréttindafélags Íslands afhenda ályktun um meðferð á málum um nálgunarbann til Ólafar Nordal innanríkisráðherra 25. febrúar 2015.

Una Hildardóttir, ráðskona í Femínistafélagi Íslands, Anna Katarzyna Wozniczka formaður W.O.M.E.N. in Iceland – Samtaka kvenna af erlendum uppruna, og Fríða Rós Valdimarsdóttir varaformaður Kvenréttindafélags Íslands afhenda ályktun um meðferð á málum um nálgunarbann til Ólafar Nordal innanríkisráðherra 25. febrúar 2015.

 

Femínistafélag Íslands, Kvennaathvarfið, Kvennaráðgjöfin, Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Stígamót og W.O.M.E.N. Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi fordæma ofbeldi gegn öllum einstaklingum og sérstaklega þeim sem eru í viðkvæmri stöðu félagslega, og hvetja yfirvöld til að taka ofbeldi gegn konum alvarlega og styrkja lög um nálgunarbann.

Við fögnum viðleitni hjá lögreglunni að láta reyna á ákvæði í lögunum um nálgunarbann. Málum um nálgunarbann hefur snarfjölgað fyrir dómstólum í ár, aðeins á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs hafa 5 mál komið til úrskurðar Hæstaréttar, en 8 mál allt árið 2014, 7 mál 2013, 3 mál 2012 og 2 mál 2011.

Þó viljum við gera alvarlegar athugasemdir við meðferð þessara mála í Hæstarétti. Í síðasta mánuði felldi Hæstiréttur úr gildi þrjá úrskurði um nálgunarbann, og svipti þar með þrjár konur stjórnarskrárvörðum rétti sínum til að njóta réttar til friðhelgi einkalífs og heimilis.

Femínistafélag Íslands, Kvennaathvarfið, Kvennaráðgjöfin, Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Stígamót og W.O.M.E.N. Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi telja að hagur og öryggi brotaþola eigi að vera í fyrirrúmi og með þessum dómum sé verið að senda röng skilaboð til fórnarlamba heimilisofbeldis.

A.m.k. einn af brotaþolunum í þessum þremur dómum var kona af erlendum uppruna. Í því samhengi skal bent á að margar konur og sérstaklega konur af erlendum uppruna sem verða fyrir heimilisofbeldi hafa veikt öryggisnet. Það setur þær í einkar viðkvæma stöðu. Því er mikilvægt að lagaumhverfi og almennt réttarkerfi sé í stakk búið til að vernda þessa einstaklinga.

Það er ljóst að niðurstöður sem þessar samrýmast ekki markmiðum laganna um nálgunarbann og brottvísun af heimili, þ.e. að styrkja réttarstöðu brotaþola og þá sérstaklega þeirra sem mega þola heimilisofbeldi. Við teljum túlkun Hæstaréttar vinna gegn markmiðum laganna.

Femínistafélag Íslands, Kvennaathvarfið, Kvennaráðgjöfin, Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Stígamót og W.O.M.E.N. Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi telja að til þess að fleiri konum verði ekki gert að þola það sama og þessum þremur konum, sé brýnt að skerpa á ákvæðum laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Mætti t.d. gera það með breytingum á núgildandi lögum og lögð yrði áhersla á að í geinargerð með lögunum yrði leiðbeinandi reglur varðandi þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar við mat á nauðsyn nálgunarbanns.

Hallveigarstaðir, 25. febrúar 2015

Femínistafélag Íslands
Kvennaathvarfið
Kvennaráðgjöfin
Kvenfélagasamband Íslands
Kvenréttindafélag Íslands
Stígamót
W.O.M.E.N. Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi

Aðrar fréttir