Stjórn Kvenréttindafélags Íslands fagnar því að fyrsta konan skuli hafa gefið kost á sér sem formaður í rúmlega 80 ára sögu Sjálfstæðisflokksins.

Kvenréttindafélag Íslands var stofnað árið 1907 á heimili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og hefur félagið frá upphafi beitt sér fyrir því að íslenskar konur fengju fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn.

Þó að mörgum af upphaflegum stefnumálum Kvenréttindafélagsins hafi verið náð, hallar enn talsvert á konur í íslenskum stjórnmálum. Er það von Kvenréttindafélagsins að með fjölgun kvenna í forystusveit stjórnmálaflokkanna, færist samfélagið nær því að byggja jafnrétti kynjanna í reynd.

Í ljósi þess hvetur stjórn félagsins konur í öllum stjórnmálaflokkum til að hvetja hverja aðra og styðja í sókn til aukinna áhrifa á vettvangi stjórnmálaflokkanna. Einnig hvetjum við flokksbræður þeirra til að leggja sitt af mörkum svo að Ísland verði áfram í fararbroddi í jafnréttismálum innan alþjóðasamfélagsins.

Hallveigarstöðum, 16. nóvember 2011