Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun:

 

 

27. september 2021
Hallveigarstaðir, Reykjavík

Það er sárara en orð fá lýst fyrir okkur í Kvenréttindafélagi Íslands að senda frá okkur yfirlýsingu um mikil vonbrigði með framkvæmd kosninga, daginn eftir að hafa í eitt andartak upplifað svo mikla gleði þegar tilkynnt var að konur hefðu í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins verið réttkjörnar í meirihluta á Alþingi Íslands. Nú kemur í ljós við endurtalningu að þrjár konur detta út af komandi þingi og hlutfall kvenna er þar með fallið niður fyrir 50%, og enn virðast ekki öll kurl vera komin til grafar.

Lýðræði er undirstaða jafnréttis. Á þessum tímum er lýðræði undir árás í mörgum löndum og því mikilvægara sem aldrei fyrr að hlúa að lýðræðinu hér á landi. Frjálsar kosningar er undirstaða lýðræðisins og stjórnvöldum ber að tryggja að framkvæmd kosninga sé gagnsæ og sanngjörn. Borgararnir eiga að treyst því að atkvæði sín skipti máli og séu rétt talin. 

Kvenréttindafélag Íslands ítrekar kröfu sína að komandi Alþingi taki af skarið og setji lög sem skylda stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis og sveitarstjórna að setja sér reglur sem tryggja hlut kvenna á framboðslistum sínum og jöfn kynjahlutföll í oddvitastöðum. Aðeins fjórir flokkar á Alþingi hafa sett sér þvílíkar reglur, Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin, Viðreisn og Vinstri hreyfingin – grænt framboð. 

Kvenréttindafélag Íslands minnir á að það er ekki einungis nóg að tryggja konum jafna þátttöku á þingi, við þurfum einnig að tryggja að Alþingi og ríkisstjórn vinni af heilindum og krafti að jafnréttismálum.

Kvenréttindafélag Íslands krefst þess að formenn flokkanna sem nú sitja á þingi fylgi eftir loforðum sínum í aðdraganda Alþingiskosninganna og geri kynja- og jafnréttisfræði að skyldufagi á öllum skólastigum.

Kvenréttindafélag Íslands krefst ennfremur að Alþingi og ríkisstjórn hrindi af stað þjóðarátaki til að uppræta ofbeldi gegn konum, sem og þjóðarátaki til að bæta kjör kvennastétta og uppræta kynbundið kjaramisrétti.

Við konur erum langþreyttar á vonbrigðum. Við bítum á jaxlinn og höldum ótrauðar áfram baráttunni við að skapa betra samfélag, jafnrétt samfélag, okkur öllum til heilla. Í dag er afmælisdagur Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Við skuldum henni og öllum þeim tugþúsundum kvenna sem hafa barist fyrir kvenréttindum og jafnrétti kynjanna síðustu eina og hálfa öldina að lýðræði og jafnrétti kynjanna sé í heiðri haft.

Aðrar fréttir