Stjórn Kvenréttindafélags Íslands fagnar því að Evrópuþingið hefur nú samþykkt ályktun um að banna kaup á vændi.

26. febrúar síðastliðinn samþykkti Evrópuþingið ályktun þar sem aðildarríki Evrópusambandsins eru hvött til að taka upp vændislöggjöf að hætti Norðurlandaþjóða, þ.e. að banna kaup á vændi en láta sölu þess óáreitta. Þessi ályktun, sem þó er ekki bindandi (e. non-binding resolution), var samþykkt eftir þrotlaust starf bresku þingkonunnar Mary Honeyball.

Honeyball skrifaði skýrsluna Report on sexual exploitation and prostitution and its impact on gender equality og lagði fyrir jafnréttisnefnd þingsins. Í þessari skýrslu er vændi skilgreint sem brot á grundvallarréttindum kvenna og sem ofbeldi sem hindri jafnrétti kynjanna. Skýrslan tilgreinir sérstaklega löggjöf Íslendinga, Svía og Norðmanna sem áhrifaríkt tæki í baráttunni gegn mansali.

Löggjöf sem þessi hefur oft verið nefnd „sænska leiðin“ hér á landi, en Svíar höfðu forgöngu að þessari leið með lögum sínum árið 1998. Norðmenn fetuðu í fótspor þeirra árið 2008 og Íslendingar í kjölfarið vorið 2009. Neðri deild franska þingsins samþykkti svipaða löggjöf í desember 2013, en efri deild  þingsins á enn eftir að samþykkja lögin.

Þess háttar löggjöf miðar að því að það sé löggjafans að sporna við sölu á kynlífi, enda sé það óásættanlegt að líta á mannslíkamann sem söluvöru. Einnig er gengið út frá því að ábyrgðin á viðskiptunum hvíli á herðum kaupandans en ekki seljandans, þar sem valdastaða þeirra sé gjörólík og kaupandi valdameiri.

Slík löggjöf var lengi í bígerð hér á Íslandi, en árið 2003 sendi Kvenréttindafélag Íslands ásamt öðrum félagasamtökum hópi þingmanna áskorun um að leiða sænsku leiðina í lög. Í áskoruninni var lögð áhersla á tengsl klámiðnaðarins og vændis og tekið undir það sjónarmið að vændi væri kynbundið ofbeldi sem bæri að vinna gegn. Var bent á að með því að gera kaup á vændi refsiverð væri komin áhrifarík leið til að berjast gegn kynbundnu ofbeldi í samfélagi okkar.

Löggjöfin hefur reynst vel í þeim löndum sem hafa tekið hana upp, og með því að samþykkja þessa ályktun hefur Evrópuþingið nú hvatt önnur ríki Evrópu að fara að dæmi þeirra. Ýmis ríki Evrópu hafa lögleitt bæði kaup og sölu á vændi, en þess háttar löggjöf hefur ekki reynst vel. Slík lög hafa hvorki gert starf vændiskvenna öruggara né komið í veg fyrir mansal, og hafa jafnvel haft þveröfug áhrif. Bendum við hér á ágæta umfjöllun þýska tímaritsins Der Spiegel í maí 2013 um reynslu Þýskalands af því að leyfa kaup og sölu á vændi.

Evrópuþingið hefur nú slegist í hóp með Íslandi, Svíþjóð og Noregi og þar með stigið stórt skref í áttina að byggja samfélag þar sem konur eru ekki söluvara. Íslendingar mega vera stoltir af því að vera meðal fyrstu þjóða til þess setja lög sem gerir kaup á vændi refsiverð.

28. febrúar 2014
Hallveigarstöðum, Reykjavík

***

Hægt er að lesa skýrslu Mary Honeyball, Report on sexual exploitation and prostitution and its impact on gender equality, á heimasíðu Evrópuþingsins.

Hægt er að hlýða á ræður Mary Honeyball á Evrópuþinginu og lesa greinar eftir hana á heimasíðu hennar.

Mary Honeyball skrifaði ásamt blaðakonunni Joan Smith grein um skýrsluna sem liggur á bak við nýju ályktun Evrópuþingsins og birtist greinin í breska dagblaðinu The Telegraph 23. janúar síðastliðinn.

Við mælum sérstaklega með grein Joan Smith um sænsku leiðina sem birtist 26. mars 2013 í breska dagblaðinu The Independent og á Knúz.is í íslenskri þýðingu Höllu Sverrisdóttur 8. apríl það sama ár.

Einnig mælum við með umfjöllun þýska tímaritsins Der Spiegel um reynslu Þýskalands af lögleiðingu vændis, en þessi umfjöllun hefur verið þýdd á ensku.

Aðrar fréttir