Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að Alþingi samþykkti í gærkvöld lengingu fæðingarorlofsins í 12 mánuði. Félagið lýsir þó vonbrigðum með að í meðferð þingsins hafi frumvarpið tekið þeim breytingum að framseljanlegur réttur foreldra til fæðingarorlofs var aukinn úr fjórum vikum í sex. Enn fremur að réttur barna og foreldra til að lifa án ofbeldis sé ekki tryggður í lögunum heldur sé starfshópi falið að leggja fram tillögur með það að markmiði að ótekinn fæðingarorlofsréttur foreldris sem látið er sæta nálgunarbanni skuli færast til hins foreldrisins.

Allar rannsóknir sýna að karlar taka aðeins brot af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs, sem hefur þær afleiðingar að konur eru lengur frá vinnumarkaði og hefur það raunveruleg áhrif á launakjör þeirra og lífeyrisréttindi. Á sama tíma hafa karlar færri tækifæri til að sinna börnum sínum. Sú breyting sem varð á góðu frumvarpi í meðferð þingsins er bakslag í jafnréttisbaráttunni.

Kvenréttindafélag Íslands lýsir vonbrigðum sínum með það hvernig umræðunni á Alþingi hefur verið stillt upp sem svo að um ósamrýmanlega hagsmuni barna annarsvegar og jafnréttisbaráttunnar hinsvegar sé að ræða. Að mati félagsins eru órjúfanleg tengsl milli jafnréttis og hagsmuna barna. Á vefsíðunni Betrafæðingarorlof.is hafa verið teknar saman niðurstöður rannsókna á fæðingarorlofi á Íslandi, sem allar sýna skýrt að jafnrétti er börnum jafnt sem fjölskyldum fyrir bestu.

Kvenréttindafélag Íslands lýsir einnig vonbrigðum sínum með hvernig umræðan á Alþingi stillti frelsi upp á móti jafnrétti. Raunverulegt valfrelsi fólks byggist á jöfnum tækifærum og jöfnum réttindum og  fæst því aldrei nema það byggist á jafnréttisgrundvelli. Félagið ítrekar enn og aftur að nauðsynlegt sé að tryggja dagvistun allra barna frá þeim tíma þegar fæðingarorlofsrétti lýkur, svo foreldrar hafi raunverulegt frelsi og sveigjanleika til að sinna börnum sínum og samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Kvenréttindafélag Íslands heldur áfram baráttu sínu fyrir jafnrétti kynjanna á öllum sviðum, þar á meðal jöfnum og óframseljanlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs. Jafnrétti er okkur öllum fyrir bestu. 

#jafntfæðingarorlof #betrafæðingarorlof