Á síðustu vikum áttu sér stað miklar skipulagsbreytingar hjá Íslandsbanka í kjölfar þess að bankinn keypti tryggingafélagið Sjóvá-Almennar tryggingar hf. Bæði hafa fyrirtækin verið fyrirmyndir og mjög leiðandi í jafnréttisumræðu á Íslandi undanfarin ár.
Á síðustu vikum áttu sér stað miklar skipulagsbreytingar hjá Íslandsbanka í kjölfar þess að bankinn keypti tryggingafélagið Sjóvá-Almennar tryggingar hf. Bæði hafa fyrirtækin verið fyrirmyndir og mjög leiðandi í jafnréttisumræðu á Íslandi undanfarin ár. Fyrirtækin hafa hvort um sig mjög metnaðargjarna starfsmannastefnu þar sem áhersla er lögð á m.a. jafnrétti kynjanna og áherslu á samræmingu atvinnulífs og einkalífs. Áhrif þessa starfs má m.a. sjá í því að Sjóvá-Almennar tryggingar hlutu í nóvember s.l. viðurkenningu Hollvina hins gullna jafnvægis.
Fyrir skipulagsbreytingar vegna samruna félaganna var stjórn Sjóvár-Almennra trygginga hf. skipuð 6 körlum og 1 konu og bankaráð Íslandsbanka var skipað 6 körlum og 1 konu. Nýjar stjórnir þessara félaga hafa enga konu innan sinna vébanda. Þeir nýju framkvæmdastjórar sem koma til starfa í félögunum eru allir karlkyns.
Kvenréttindafélag Íslands hefur lagt mikla áherslu á fyrirmyndir og sýnileika í baráttu sinni að réttlátara samfélagi þegnanna þar sem kynin hafi sömu möguleika og sama rétt. Viðskiptalífið á Íslandi er í mikilli gerjun og því mjög áríðandi að konur séu sýnilegar í stjórnum og forystu þar sem annarsstaðar. Mikil völd fylgja fjármunum þeim sem í viðskiptalífinu liggja og eðlilegt að hlutur annars helmings mannkyns sé ekki lakari en hins þar frekar en annarsstaðar.
Kvenréttindafélag Íslands lýsir því yfir miklum vonbrigðum með áhrif þessara breytinga á stöðu kvenna í Íslandsbanka og væntir þess að sjá bæði í bankaráði og yfirstjórn bankans jafnara hlutfall kynja sem fyrst.