Dagskrá út um allt land, 19. júní 2016

feminism-wave-of-hands

Til hamingju með 19. júní! Í dag fögnum við því að 101 ár er liðið frá því að konur fengu kosningarétt. Fjölbreytt dagskrá er út um land allt til að minnast afmælisins.

Viljum við sérstaklega bjóða ykkur velkomin á hátíðarfund á Hallveigastöðum kl. 15.

Í ár er fundurinn helgaður forsetakosningum og eru gestir fundarins konur í framboði til embættis forseta Íslands: Elísabet Jökulsdóttir, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir og Hildur Þórðardóttir.

Glæsilegar kaffiveitingar eru í boði Hallveigarstaða.


Dagskrá í tilefni dagsins

Kvennaleiðsögn á Árbæjarsafni, Reykjavík kl. 11 og kl. 14

Í dag býður Árbæjarsafn upp á leiðsagnir um safnsvæðið kl. 11 og 14 þar sem rætt verður um hefðbundin störf kvenna á árum áður í tengslum við sýninguna HJÁVERKIN – atvinnusköpun kvenna í heimahúsum 1900-1970. Á þeim árum var heimilið staður konunnar og voru verkefnin ærin. En ofan á heimilisstörfin öfluðu konur sér oft tekna með annarri vinnu sem oft var unnin inn á heimilinu svo sem saumaskap, bakstri og kennslu. Sýningin Hjáverkin er staðsett í Kornhúsinu.

Ýmislegt verður um að vera á safninu þennan dag. Á baðstofuloftinu verður spunnið á rokk og bakaðar lummur í eldhúsinu. Við Hábæ verður þvottur þveginn og prentari að störfum í prentstofunni.

Frítt inn fyrir konur í tilefni kvenréttindadagsins.

Kvennasöguganga, Akureyri kl. 11:00

Jafnréttisstofa býður til kvennasögugöngu á Akureyri  í samstarfi við Héraðsskjalasafnið, Minjasafnið, Akureyrarbæ og  Zontaklúbbana á Akureyri. Gengið verður í fótspor kvenna sem settu svip á Brekkuna.

Kristín Aðalsteinsdóttir prófessor leiðir gönguna sem hefst í Lystsigarðinum klukkan 11:00. Göngufólk mæti á flötina við Café Laut.

Gunna fótalausa, Trékyllisvík kl. 13:30

Kl. 13:30 verður opnuð sýning og afhjúpaður minnisvarði um Guðrúnu Bjarnadóttur (1770-1859) í minjasafninu Kört í Trékyllisvík.

Sýningin ber yfirskriftina Gunna fótalausa en það viðurnefni fékk Guðrún 15 ára gömul þegar hún kól svo illa að taka varð neðan af báðum fótum hennar. Fötluðum ungum konum á 18. öld voru ekki margir vegir færir en Guðrún markaði sér sína eigin slóð. Hún lét kyn, fötlun og þjóðfélagsstöðu ekki aftra sér í að verða bátasmiður, bóndi og jarðeigandi í Árneshreppi. Guðrún var vel liðin og framsýn kona sem steig ölduna í lífsins ólgusjó af fádæma styrk. Saga Guðrúnar verður að teljast einstök hvort sem horft er á hana út frá stöðu kvenna eða fatlaðra á hennar tíma.

Í minjasafninu Kört er einnig hægt að kynna sér sögu svæðisins, versla handverk af heimamönnum eða setjast niður með rjúkandi kaffibolla í fallegu umhverfi. Safnið er opið alla daga í sumar frá 10 til 18.

Blómsveigur á leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, Reykjavík kl. 14:30

Blómsveigur frá Reykvíkingum verður lagður að leiði baráttukonunnar Bríetar Bjarnhéðinsdóttur klukkan 14:30 í Hólavallarkirkjugarði. Forseti borgarstjórnar, Sóley Tómasdóttir, flytur stutt ávarp og flutt verður tónlistaratriði. Að athöfn lokinni verður gengið að Hallveigarstöðum þar sem félög kvenna  bjóða til kaffisamsætis kl. 15.

Hátíðarfundur með konum í framboði til embættis forseta Íslands, Reykjavík kl. 15

Hátíðarfundur félaga kvenna á Hallveigastöðum er haldinn að vanda í dag, kl. 15. Í ár er fundurinn helgaður forsetakosningum og eru gestir fundarins konur í framboði til embættis forseta Íslands: Elísabet Jökulsdóttir, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir og Hildur Þórðardóttir. Glæsilegar veitingar eru í boði Hallveigarstaða.

Kvennamessa, Reykjavík kl. 20

Hin árlega kvennamessa Kvennakirkjunnar er haldin við Kjarvalsstöðum á Klambratúni í ár. Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir prédikar.