Fundur um aukinn hlut kvenna í sveitarstjórnum

konur í forystusætiKvenréttindafélag Íslands og Kvenfélagasamband Íslands bjóða upp á súpu og spjall í hádeginu á Hallveigarstöðum mánudaginn 27. janúar.

Á fundinum verður rætt um stöðu kvenna í stjórnmálum á landsbyggðinni. Gestir fundarins eru Arna Lára Jónsdóttir bæjarfulltrúi á Ísafirði, Arnbjörg Sveinsdóttir forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði, og Ásgerður K. Gylfadóttir bæjarstjóri Hornafjarðar.

Hlutur kvenna í íslenskum sveitarstjórnum hefur aukist jafnt og þétt síðustu áratugina. Konur eru í dag 40% kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum landsins, en betur má ef duga skal. Á fundinum verður rætt um reynslu kvenna í stjórnmálum í bæjarfélögum úti á landi og leiðir til að auka hlut kvenna í stjórnum sveitarfélaga.

Jafnréttisstofa hefur tekið saman tölur og skýrslur um hlutfall kynjanna í íslenskum sveitarstjórnum og á framboðslistum, og hægt er að lesa þá umfjöllun hér.

Kvenréttindafélag Íslands fagnar 107 ára afmæli sínu 27. janúar, en félagið var stofnað árið 1907 á heimili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Markmið félagsins við stofnun var að starfa að því að íslenskar konur fengju fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og embættisgengi og rétt til atvinnu með sömu skilyrðum og karlmenn. Kvenréttindafélag Íslands styður konur til forystu.

Verið velkomin í súpu, brauð og fróðleik milli kl. 12 og 13 á Hallveigarstöðum.

Aðgangur og veitingar eru ókeypis.