„Jafnrétti má ekki lengur snúast eingöngu um kynferði“. Þetta eru niðurstöður norrænnar-bandarískrar námstefnu sem haldin var í Washington í upphafi þessa mánaðar. Danska sendiráðið í Washington og Norræna ráðherranefndinn stóðu að námstefnunni sem haldin var í tengslum við norrænu menningarhátíðina Nordic Cool, mánaðarhátíð þar sem yfir sjöhundruð norrænir listamenn léku listir sínar vestan hafs.

Námstefnuna sóttu þingmenn frá Norðurlöndum, Silvia Modig frá Finnlandi, Satu Haapanen frá Finnlandi, Bjørt Samuelsen frá Færeyjum og Truls Wickholm frá Noregi. Frá Bandaríkjunum mættu til leiks Michele L. Swers, dósent við Georgetown University, Jacqueline Pata, framkvæmdastjóri National Congress of American Indians og Julie Ajinkya, sérfræðingur hjá Center for American Progress.

Bandarísku sérfræðingarnir fjölluðu um að hætta sé á pólitískri kreppu ef ákvarðanatökur í framtíðinni taka ekki tillit til allra þjóðfélagsþegna. Þetta tóku norrænu þingmennirnir undir, og finnska þingkonan Silvia Modig benti á að „Norðurlöndin eru í fararbroddi í heiminum, hvað varðar jafnrétti kynjanna. En hins vegar erum við ekki jafnframarlega og Bandaríkin hvað varðar jafnrétti fyrir alla þjóðfélagshópa“.

Julie Ajinkya varaði við því að jafnrétti væri eingöngu skilgreint út frá kynferði. „Bandaríkin og heimurinn allur hafa ekki efni á að taka ekki tillit til jafnréttis, fjölbreytileika og minnihlutahópa í stefnu- og samfélagsmótun framtíðarinnar. Við verðum hreinlega að fjárfesta í þessum hópum,“ sagði hún.

Ítarlega er fjallað um námstefnuna á vef Norðurlandaráðs. Þar er einnig hægt að sjá myndskeið af námstefnunni.

Unnið upp úr frétt á norden.org.