Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að meirihluti stjórnmálaflokkanna sem eiga sæti á Alþingi, eru með jafna kynjaskiptingu í þingflokkum sínum. Einnig fagnar KRFÍ því sögulega háa hlutfalli kvenna á Alþingi, en tæp 43% þeirra sem nú taka þar sæti eru konur.

Undanfarin ár hefur Kvenréttindafélag Íslands ítrekað bent á að stjórnmálaflokkarnir beri ábyrgð á jöfnuði kynjanna innan eigin raða. Það er því ánægjulegt að sjá að nokkrir þeirra hafa tekið þessa ábyrgð alvarlega eins og einnig kom í ljós í jafnri kynjaskiptingu minnihlutastjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Ísland skipar sér nú í efstu sæti ríkja heims hvað varðar jafna kynjaskiptingu á þingi og gefur með því til kynna að Íslendingar taka jafnréttismálin alvarlega.

Hallveigarstöðum 17. apríl 2009