Ákvörðun tekin að gefa út "Frelsi-Kvenna" eða "Kúgun kvenna" eftir John Stuart Mill í íslenskri þýðingu Sigurðar Jónassonar, á fundi Hins íslenska kvenfélags 22. febrúar 1900. (Lbs 971 fol.)

Fimm íslenskar súffragettur

Landsbókasafn setti á dögunum á netið fyrstu fundargerðabók Hins íslenzka kvenfélags, sem var stofnað 1894 og hætti störfum í kringum árið 1930.

Hið íslenzka kvenfélag var fyrsta félagið sem hafði það á stefnuskrá sinni að berjast fyrir kvenréttindum og kosningarétti kvenna. Ítarleg grein um félagið, Kvenréttindi og líknarmál í einni sæng, var skrifuð af Kristínu Ástgeirsdóttur, þá þingkona og nú framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, á aldarafmæli þess.

Hið íslenzka kvenfélag stóð fyrir útgáfu á Kúgun kvenna, íslenskri þýðingu Sigurðar Jónassonar á On the subjection of women eftir John Stuart Mill (smellið hér til að lesa ljósprentaða útgáfuna á netinu). Í fundargerðabókinni er hægt að lesa frásögn af fundinum þegar útgáfan var ákveðin. Á þeim fundi sátu konur sem hafa lifað með þjóðinni fyrir ötula baráttu sína fyrir kvenréttindum og betri heimi, en nafngreindar eru fimm konur: Ólafía Jóhannsdóttir, Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Hólmfríður Rósinkrans, Þorbjörg Sveinsdóttir og Ingibjörg Bjarnason.

Ákvörðun tekin að gefa út "Frelsi-Kvenna" eða "Kúgun kvenna" eftir John Stuart Mill í íslenskri þýðingu Sigurðar Jónassonar, á fundi Hins íslenska kvenfélags 22. febrúar 1900. (Lbs 971 fol.)

Ákvörðun tekin að gefa út „Frelsi-Kvenna“ eða „Kúgun kvenna“ eftir John Stuart Mill í íslenskri þýðingu Sigurðar Jónassonar, á fundi Hins íslenska kvenfélags 22. febrúar 1900. (Lbs 971 fol.)

Eins og gengur og gerist á fundum félagasamtaka, þá eru teknar stórar ákvarðanir, en einnig rifist um baráttuaðferðir. Konur eru sammála um að gefa út Kúgun kvenna en í næstu andrá rífast þær um hvort að halda eigi tombólu eða ekki. Einnig er skemmtilegt innskot úr alheiminum, þegar fundarkonur ræða hvort að þær eigi að skrifa stuðningsyfirlýsingu og senda til eiginkonu Alfreds Dreyfus (aðalhneykslismál aldamótanna 1900, lesið meira um málið hér), en fundarkonur áttu eftir að rífast um Dreyfusmálið á allnokkrum fundum út árið 1900.

Fundur Hins íslenzka kvenfélags 22. febrúar 1900 —  fundargerð

Fimtudaginn 22. febrúar 1900 var haldin fundur í hinu íslenska – kvennfjelagi, á venjulegum stað, og tíma. — Froken Ólafía Jóhannsdóttir kom fram með uppástundu þess efnis, hvort kvennfjelagið ætti að taka að sjer útgáfu bókarinnar „Frelsi-Kvenna“, og var nokkuð um það rætt. Tillaga frú Bríet Bjarnhjeðinsdóttir um að láta bókina koma út í einu lagi. Samþ. af öllum greiddum atkvæðum, að gjöra fyrirspurn um verð, á handriti bókarinnar. Uppástunda um tombólu í kvennfjelaginu borin fram að frk. Ingibjörgu Bjarnason. Borið undir fundinn hvert halda skyldi „tombóluna“ í vor, því var nokkuð mótmælt af frú Bríet Bjarnhjeðinsdóttir. Skotið til úrskurðar fundarinns, hvert æskilegt væri að halda „tombólu“ þessa. Samþykt af öllum greiddum atkvæðum að halda þessa tombólu í vor. Frú Hólmfríður Rósinkrans bar fram uppástungu þess efnis: að halda svokallað „böggulkvöld“ á næsta fundi í fjelaginu, sem sje 29. mars. Samþykt með meiri hluta atkvæða. Fröken Ólafía Jóhannsdóttir skírði frá því, að hr. Eiríkur Magnússon í Cambrigde hefði bent „Framsókn“ á, að vel tilfallið væri, að senda frú Dreyfuss ávarp í hluttekningar skyni, frá íslensku kvennfólki. Fleiri mál voru ekki rædd á þessum fundi. Fundi slitið.

Þorbjörg Sveinsdóttir/Ingibjörg Bjarnason.

Smellið á hér til að lesa fundargerðabókina á vef Landsbókasafnsins.

Konurnar sem sátu fundinn

Ólafía Jóhannsdóttir (1863-1624)Ólafía Jóhannsdóttir (1863-1924) er hjúkrunarfræðingur og einn af þjóðardýrlingum Noregs, en hún starfaði við hjálparstörf meðal vændiskvenna og útigangsmanna í Osló og barðist fyrir að bæta kjör þeirra. Hún var kvenréttindakona mikil og félagskona, og einn af stofnendum Hvítabandsins.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1856-1940)Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1856-1940) var fyrst kvenna til að halda opinberan fyrirlestur hér á landi (lesa hér). Hún var blaðaútgefandi og gaf m.a. út Kvennablaðið, mest lesna blaðið undir lok 19. aldarinnar. Hún stofnaði Kvenréttindafélag Íslands og var fyrsti formaður þess og átti einnig aðild að stofnun verkakvennafélagsins Framsókn. Hún leiddi kvennalista til stórsigurs í bæjarstjórn Reykjavíkur 1908.

Ingibjörg Bjarnason (1867-1941)Ingibjörg Bjarnason (1867-1941) stýrði Landspítalasjóði sem stofnaður var 1915 í tilefni af því að konur fengu kosningarétt, og 1922 var hún kosin á Alþingi af kvennalista. Hún sat á þingi til 1927 og barðist fyrir réttindum kvenna og barna.

 

Hólmfríður RósenkransHólmfríður Rósinkrans. Þetta er væntanlega Hólmfríður Rósenkrans sem sat í fyrstu stjórn Hvítabandsins og var veitingakona á Café Uppsölum í Aðalstræti, en meira veit framkvæmdastýra ekki. Tvær konur með þessu nafni skrifa undir „Áskorun til íslenskra kvenna“ í Heimilisblaðinu 1917 að hlúa að áfengisbanninu (!) önnur veitingakona og hin (sama?) búsett á Kirkjustræti.

Þorbjörg Sveinsdóttir (1827-1903)Þorbjörg Sveinsdóttir (1827-1903) aflaði sér menntunar sem ljósmóðir í Kaupmannahöfn. Hún starfaði sem ljósmóðir í Reykjavík og kenndi þar fjölda kvenna ljósmóðurstörfin. Hún barðist fyrir stofnun háskóla á Íslandi, og að frumkvæði hennar var Hið íslenska kvenfélag stofnað 1894 en það félag hafði það að markmiði að háskóli yrði stofnaður hér á landi og varð síðar formaður þess. Hún var einn af stofnendum Hvítabandsins.

 

Comments are closed.

Aðrar fréttir