Peoples_Climate_March

Klukkan 14 næsta sunnudag, þann 29. nóvember, göngum við Loftslagsgönguna í Reykjavík. Gangan er hluti af alþjóðlegri hreyfingu, Global Climate March, og ein af ríflega 1.500 göngum sem gengnar verða víða um heim sama dag*.

Markmiðið er að krefja þau ríki sem sækja 21. þing aðildarríkja Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem hefst í París degi síðar, um að hætta að brenna jarðefnaeldsneyti; olíu, kol og gas. Önnur meginkrafa er að iðnríki veiti þriðjaheimsríkjum sem verst verða úti vegna áhrifa loftslagsbreytinga nægilegan fjárstuðning til að að aðlagast nýjum og erfiðum aðstæðum og geri þeim jafnframt kleyft að nýta hreinar og endurnýjanlegar orkulindir í framtíðinni.

Göngurnar hafa þó flestar einnig staðbundnar kröfur. Kröfur Loftslagsgöngunnar í Reykjavík eru þríþættar:

  1. Að Ísland axli ábyrgð sína í loftslagsmálum og skuldbindi sig í París til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 40% fyrir árið 2030 – óháð markmiði ESB um 40% samdrátt í losun.
  2. Ennfremur beri Íslandi að stefna að kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 líkt og mörg önnur lönd gera.
  3. Þá krefjumst við þess að hætt verði við öll áform um olíuleit og -vinnslu á Drekasvæðinu, enda ljóst að þau áform samræmast á engan hátt því markmiði að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti.

 

Við munum koma saman kl. 14 á hinu svokallaða „Drekasvæði“ fyrir framan söluturninn Drekann á horni Kárastígs, Frakkastígs og Njálsgötu, ganga þaðan upp Kárastíg og síðan niður Skólavörðustíg og enda á kröfufundi á Lækjartorgi. Ræðumenn verða Hrönn Egilsdóttir doktorsnemi sem rannsakar áhrif súrnunar sjávar og Bragi Páll ljóðskáld.

Fjölmargir aðilar standa að göngunni, þeirra á meðal eru Náttúruverndarsamtök Íslands, Vefritið Grugg, Breytendur, Landvernd, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, ASÍ, Siðmennt, Landvarðafélag Íslands, Náttúran.is, Ferðafélag Íslands, VG, SFS, Björt framtíð, UN Women, Hið íslenska náttúrufræðifélag, Kvenréttindafélag Íslands, SGI á Íslandi, Alþýðufylkingin, UVG, Ungir jafnaðarmenn, Gaia – Nemendafélag meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði, Slow Food Reykjavík, Fuglavernd, Samtök hernaðarandstæðinga og Ungir umhverfissinnar.

* Stærsta gangan var fyrirhuguð í París, en frönsk yfirvöld afturkölluðu leyfi til göngunnar í ljósi hörmulegra atburða þar fyrr í mánuðinum.

Aðrar fréttir