Fimmtán samtök og stofnanir funda um samráð gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnumarkaði, 11. júní 2018.

Síðastliðnu mánuði hafa frásagnir kvenna sem birtar eru undir myllumerkinu #MeToo vakið athygli á landlægri kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem viðgengst á íslenskum vinnumarkaði. Í dag fundaði Kvenréttindafélag Íslands ásamt samtökum launafólks, atvinnurekenda og fagfólks til að ræða hvernig unnt sé að uppræta þetta ofbeldi. Að fundinum stóðu Kvenréttindafélagið í samstarfi við heildarsamtök launafólks og Félag kvenna í atvinnulífinu.

Fundurinn er haldinn í kjölfar þjóðfundar sem haldinn var í febrúar síðastliðnum, þar sem konur úr #MeToo-hópum mættu og ræddu hvað þarf að gera til að tryggja öruggt starfsumhverfi og breyta menningunni. Á fundinum lögðu #MeToo konur fram skýrar kröfur til atvinnurekenda, stéttarfélaga og stjórnvalda, kröfur sem hægt er að lesa í skýrslunni Samtal við #metoo konur. Hvað getum við gert?.

Nú ríður á að kröfur #MeToo-kvenna lendi ekki í skúffunni hjá þeim aðilum sem þeim er beint til. Því voru fulltrúar atvinnulífsins, stéttarfélaga og stjórnvalda boðaðir til fundar í dag til fara yfir hvernig þau hafa brugðist við #MeToo-byltingunni, ræða kröfur #MeToo-kvenna og hefja samtal um hvernig við getum brugðist við þeim, í sameiningu.

Á fundinn mættu fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bjarkarhlíð – miðstöð þolenda ofbeldis, BSRB, Félag forstöðumanna ríkisstofnana, Félagi kvenna í atvinnulífinu, Jafnréttisstofu, Kennarasambandi Íslands, Kjara- og mannauðssýslu ríkisins, Kvenréttindafélagi Íslands, Mannauði, félags mannauðsfólks, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Sálfræðingafélagi Íslands, Vinnueftirliti ríkisins og VIRK, starfsendurhæfingarsjóði. Mikill áhugi er meðal allra þessara samtaka, félaga og stofnana að vinna saman að því að bregðast við yfirlýsingum #MeToo-kvenna og mættu fulltrúar frá öllum samtökum sem boðuð voru á fundinn.

Kvenréttindafélag Íslands bindur vonir við og hlakkar til að taka þátt í því mikilvæga starfi sem framundan er að tryggja það að sem víðtækust samvinna náist um að uppræta kynferðislega áreitni og ofbeldi á íslenskum vinnumarkaði.

Við minnum á ályktun sem Kvenréttindafélag Íslands sendi frá sér þegar fyrstu yfirlýsingar #MeToo-kvenna birtust í nóvember 2017:

Kynferðislegt ofbeldi og áreitni er bein ógn við lýðræðislega þátttöku kvenna og þar með bein ógn við lýðræði á Íslandi. Hve lengi ætlum við að líða það að konur hrökklist úr starfi vegna áreitni og ofbeldis sem þær eru beittar á opinberum vettvangi? Hve lengi ætlum við að líða það að konur á Íslandi búi ekki við öryggi, hvorki inni á heimilum né á vinnustað? Hve lengi ætlum við að líða það að karlar geti áreitt konur og beitt þær ofbeldi, án hindrunar, eftirmála og án refsingar? Ekki lengur!

Við stöndum saman gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni. Byltum samfélaginu, saman.

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands ávarpar fund fimmtán samtaka og stofnana um samráð gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnumarkaði, 11. júní 2018.