Kvenréttindafélag Íslands mótmælir harðlega þeirri ákvörðun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar að mæla með styttingu opnunartíma leikskóla borgarinnar, að þeim verði lokað kl. 16.30 í stað kl. 17.00.

Í samtali við Fréttablaðið segir Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, að með ákvörðuninni sé verið að bregðast við ábendingum fagfólks og skorti á nýliðun. Kvenréttindafélag Íslands bendir á að mun skilvirkari leið til að minnka álag á starfsfólk og til að auka nýliðun í leikskólum borgarinnar sé að bæta kjör alls starfsfólks í leikskólum. 

Í könnun sem Efling lét gera 2017 meðal félagsmanna sinna kom í ljós að starfsmenn í leikskólum væru með lægstu heildarlaunin en mesta starfsálagið. Í könnuninni kom fram að 80% leiðbeinenda í leikskólum væru mjög eða frekar ósáttir með laun sín og um 75% teldi að vinnuálagið í leikskólum væri of mikið. 

Við minnum einnig á skýrslu sem starfshópur um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík gaf út í febrúar 2018, þar sem sérstaklega er bent á lág laun og álag sem einkennir starf leikskólakennara. Í skýrslunni kemur fram að heildarlaun leikskólakennara í Reykjavík eru mun lægri en heildarlaun annarra háskólafélaga starfsmanna borgarinnar, eða 557.794 kr. innan félags leikskólakennara en 639.402 kr. hjá öðrum háskólafélögum. Í skýrslunni er einnig bent á að frá árinu 2009 hafi 9% félagsmanna í Félagi leikskólakennara sótt þjónustu hjá VIRK starfsendurhæfingu í kjölfar langtímaveikinda, en til samanburðar 5% hjá grunnskólakennurum og 2,1% hjá framhaldsskólakennurum. 

Sú ákvörðun að mæla með styttingu opnunartíma leikskóla er byggð á áfangaskýrslu stýrihóps um umbætur og skipulag leikskólastarfs í Reykjavík sem hefur það hlutverk „að skoða leiðir til að auka fagmennsku, minnka álag á börn og starfsfólk og tryggja gæði starfsins með þarfir barnanna í huga“. Í skýrslunni er þó aðeins rætt um opnunartíma leikskóla, en ekki farið út í djúpstæðari ástæður þess álags sem er á leikskólastarfsfólki og erfiðleika við nýliðun.

Í skýrslunni kemur fram að í dag eru 400 börn sótt í leikskóla borgarinnar eftir kl. 16.30. Það þýðir að allt að 400 fjölskyldur eiga eftir að eiga í miklum erfiðleikum ef ákvörðun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar um að stytta opnunartíma leikskóla borgarinnar verður staðfest af borgarráði í þessari viku. 

Í áfangaskýrslunni er bent á að dvalartími barna í leikskólum hefur lengst töluvert síðan 1969, og að „leikskólakennarar hafa haft áhyggjur af þessari þróun“. Kvenréttindafélag Íslands minnir á að fjölgun barna í leikskólum og sú staðreynd að leikskólapláss sé í boði er forsenda þess að Ísland hefur náð svo langt sem raun ber vitni í að tryggja jafnrétti kynjanna. Jafnrétti kvenna og karla verður aldrei náð fyrr en konur hafa fjárhagslegt sjálfstæði, og konur ná ekki fjárhagslegu sjálfstæði ef þær eru bundnar inni á heimilum í ólaunuðu starfi. Full þátttaka kvenna á íslenskum vinnumarkaði er ekki aðeins forsenda fyrir kvenfrelsi, heldur einnig fyrir hagsæld þjóðarinnar þar sem samfélagið reiðir sig á að við öll tökum virkan þátt í atvinnulífinu og leggjum okkar af mörkum. 

Mikill meirihluti starfsfólks í leikskólum landsins eru konur, 93% samkvæmt tölum Hagstofunnar frá 2018. Hátt hlutfall starfsfólks er af erlendum uppruna, 13,5% samkvæmt rannsókn Menntamálastofnunar frá 2019. Það hallar undir báða þessa hópa á íslenskum vinnumarkaði, enn er mikill launamunur kynjanna í samfélagi okkar og launamunur milli innlendra og innflytjenda er að sama skapi mikill. Það væri nærtækast ef Reykjavíkurborg og sveitarfélögin öll á landinu tækju höndum saman og hækkuðu laun alls starfsfólks í leikskólunum til muna, og borgi þeim verðskulduð laun. 

Í áfangaskýrslunni er því einnig haldið fram að leikskólakennarar telji að „langur dvalartími, í erilsömu umhverfi í stórum hópi barna, í 8,5 til allt að 9,5 stundir á dag sé of mikið og komi niður á þroska, s.s. málþroska og líðan barna sem í auknum mæli sýni merki kvíða og streitu“. Kvenréttindafélag Íslands telur víst að allir foreldrar vilji vera sem mest með börnunum sínum og að það sé aldrei fyrsta val foreldra að hafa börn sem lengst í leikskólanum. Útivinnandi foreldrar vinna flestir fullan vinnudag til að geta lagt sitt til samfélagsins og í mörgum tilfellum til þess að eiga til hnífs og skeiðar. Foreldrar eru alla jafna að gera sitt allra besta til að láta púsluspilið ganga upp með það að markmiði að geta varið sem mestum gæðatíma með börnum sínum. Að ala á samviskubiti foreldra varðandi lengd þess tíma sem börnin eru í leikskóla á hverjum degi er lúalegt bragð. 

Það að ýta undir samviskubit foreldra beinist meira að mæðrum en feðrum þar sem að það virðist enn vera svo að þegar taka þarf ákvörðun um að skera niður vinnu til að sinna börnum eru það mæður í flestum tilvikum sem taka það á sig með tilheyrandi tekjuskerðingu. Foreldraskömminni er því beint gegn kvenfrelsi þar sem hún stillir konum upp við vegg. Annaðhvort minnkar þú vinnuna eða viðurkennir að þú sért slæm móðir. Kvenréttindafélag Íslands mótmælir þessari aðferðafræði. 

Sú ákvörðun að stytta opnunartíma leikskóla Reykjavíkur er líkleg til að bitna mun meira á konum en á körlum. Jafnt fæðingarorlof og dagvistun barna tryggir jafnræði atvinnuþátttöku kvenna og karla og eykur hagsæld hér á landi. Leikskólar eru einn lykilþátturinn til að tryggja jafnrétti kynjanna. Með því að skerða dagvistunarúrræði er skref tekið afturábak í jafnréttisbaráttunni. 

Ákvörðun skóla- og frístundaráðs að stytta opnunartíma leikskóla verður á dagskrá borgarráðs í þessari viku og hvetur Kvenréttindafélag Íslands borgarráð til að hafna þessari tillögu og ræða í kjölfarið hvernig Reykjavíkurborg geti unnið að raunverulegum kjarabótum og bættu starfsumhverfi fyrir starfsfólk í leikskólum borgarinnar og á sama tíma brúað bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunar.