Gertrud Åström, félagi í framkvæmdastjórn Nordiskt Forum og formaður sænska kvenréttindafélagsins (Sveriges kvinnolobby), heldur fyrirlestur í Hörpu um niðurstöður Nordiskt Forum og kröfur norrænu kvennahreyfingarinnar þriðjudaginn 26. ágúst næstkomandi.

Gertrud er gestur á ráðstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar sem haldin er í Hörpu 26. ágúst næstkomandi í tilefni þess að fjörutíu ár eru liðin síðan ráðherranefndin ákvað að hefja formlegt samstarf á sviði jafnréttismála.

Ráðstefnan fer fram á Norðurlandamálum og túlkað verður á finnsku, íslensku og ensku.

Dagskrá ráðstefnunnar er fjölbreytt en boðið verður upp á tónlistarflutning, myndbandssýningu, hátíðarræður, fyrirlestra og pallborðsumræður ungmenna, stjórnmálamanna og sérfræðinga. Einkum verður lögð áhersla á jafnrétti á vinnumarkaði, menntun, og aukna þátttöku karla og drengja í jafnréttisstarfi. Um þessar mundir er fagnað aldarafmæli kosningarréttar kvenna á Norðurlöndum og af því tilefni verður hugað að stöðu lýðræðis með hliðsjón af stjórnmálaþátttöku kvenna.

Skráning er opin öllum, og hægt er að skrá sig til 22. ágúst á: http://jubilconf.yourhost.is/registrering. Þátttökugjald er ekkert.

Hægt er að lesa nánar um dagskrá ráðstefnunnar með því að smella hér!